„Jafnframt sáir hann fræjum efasemda um væntanlegt rit Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum og gerir því skóna að það kunni að litast af samningsafstöðu ríkisstjórnarinnar í aðildarviðræðum,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar svarar Már grein Birgis Ármannssonar alþingismann þar sem Birgir spyr hvort sjálfstæði Seðlabanka Íslands gæti verið í hættu þar sem seðlabankastjóri er formaður í samningshópi um gjaldmiðilsmál í viðræðum um aðild að ESB.

Már þvertekur fyrir að sú vangavelta geti reynst sönn og slær á létta strengi þegar hann segist almenn ekki elta fullyrðingar í fjölmiðlum þó að þessu sinni hann telji að um skiljanlegan misskilning sé jafnvel að ræða sem beri að leiðrétta. „Í öðru lagi hefur mér virst Birgir vera bæði vandaður og málefnalegur og því nokkurs virði að eiga við hann orðastað,“ bætir Már við. „Ekki spillir fyrir að ég lít nú eiginlega á hann sem svolítinn seðlabankamann eftir að hann vann sem sumarmaður í bankanum hér fyrr á árum.“

Már segir formennsku sína í gjaldmiðlahópi í aðildarviðræðum við ESB eðlilegan hluta af verkum Seðlabanka þar sem Seðlabankinn sé í ráðgefandi hlutverki við ákvörðun sem annars er á forræði Alþingis og ríkisstjórnar. „Það myndi veikja bankann ef hann er ekki í afgerandi hlutverki við verkefni af þessu tagi,“ segir Már. Hann bætir við að upptaka evru hafi verið hluti af ákvörðun stjórnvalda um að sækja um aðild að ESB og aldrei tilefni til annars í samningsafstöðu sem gjaldmiðlahópurinn hefur unnið en að það komi fram.

Að lokum biður Már um að riti sem Seðlabankinn mun birta þann 17. september næstkomandi um gjaldmiðilsmál og unnið hefur verið að síðustu tvö ár verði ekki ruglað saman við þessi mál. „Samningsafstaðan miðar við aðild að ESB en ritið tekur þann kost og vegur hann og metur ásamt öðrum,“ segir Már. „Nú er rétt að ritið tali fyrir sig en ég get fullvissað Birgi og aðra um það að hvorki ríkisstjórn né neinir aðrir utanaðkomandi aðilar hafa reynt að hafa áhrif á efni þess, enda hefði það ekkert þýtt.“