Már Guðmundsson, núverandi Seðlabankastjóri mun sækja um starfið að nýju. Hann tilkynnti þetta í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 um sexleytið í kvöld. Starfið var auglýst 2. júní en umsóknarfrestur er til mánaðamóta. Þessu greinir Ríkisútvarpið frá.

Má var tilkynnta af stjórnvöldum í febrúar síðastliðnum að embættið yrði auglýst til umsóknar. Hann sagði í framhaldi að ákvörðun hans um að sækjast aftur eftir starfinu færi eftir því hvernig honum hugnaðist fyrirhugaðar breytingar á lögum um Seðlabankann, en stjórnvöld hafa gefið út að endurskoðun laga um bankann standi fyrir dyrum.

Már sagði í samtalinu í Eyjunni að hann hefði nýlega komist að þessari niðurstöðu. Hann sagðist ekki vilja yfirgefa starfið í miðjum klíðum, þegar miklar breytingar stæðu fyrir dyrum; honum hafi fundist hann verða að sækja um. Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að heildstæð endurskoðun á lögum um Seðlabankann væri nauðsynleg. Í fjármálakreppunni hefðu komið í ljós veigamiklir ágallar í lagarammanum, til dæmis hvað varðar hlutverk bankans sem lánveitandi til þrautavara.

Már sagðist ákvörðunina sem tekin var í yfirstjórninni árið 2009 þegar hætt var með þrjá bankastjóra hafi í stórum dráttum heppnast vel, en hún hafi verið gerð í skyndi og ekki í fullri sátt. Hann sagði nauðsynlegt að fara vel yfir þetta og jákvætt að stjórnvöld hafi gefið endurskoðunarferlinu rúman tíma.

Aðspurður um hvort hann hefði látið stjórnvöld vita af ákvörðun sinni, sagðist hann vera að því með þessu viðtali.