*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 11. október 2017 10:39

Már segir dóminn ekki traustan

Seðlabankastjóri segir húsleit hjá Samherja mögulega hafa gengið of langt og dregur dóm Héraðsdóms í efa.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sagði í samtali við Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja að sérstakur saksóknari hefði stjórnað húsleitinni í húsnæði fyrirtækisins þann 27. mars 2012. Þetta er þvert á það sem kom fram í bréfi bankans til saksóknarans sem sent var sex dögum fyrir húsleitina þar sem óskað var eftir aðstoð saksóknaraembættisins að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Seðlabanki Íslands áformar húsleit hjá Samherja hf. og tengdum félögum vegna gruns um meint brot gegn lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál,“ segir í bréfinu en sama tón má greina í fréttatilkynningu frá bankanum sem send var klukkustund eftir að húsleitin hófst.

„Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands, með aðstoð Embættis sértaks saksóknara, framkvæmdi í morgun húsleitir á starfstöðvum Samherja hf. í Reykjavík og á Akureyri.“

Birti upptöku af samtali í sjónvarpsþætti

Þorsteinn Már birti ummæli Más af uppöku úr símtali þeirra á milli í þættinum Atvinnulífið á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi en þar sagði Már að mögulega hafi verið gengið of langt í húsleitinni. „[Seðlabanki Íslands] getur bara beðið um húsleit og punktur basta,“ sagði Már meðal annars. „Og mér sýnist, bara svona okkar á milli, að kannski hafi verið gengið þar allt of langt.“

Þorsteinn og Már ræddu einnig um niðurstöðu Héraðsdóms um að fella niður 15 milljón króna stjórnvaldssekt Seðlabankans á fyrirtækið á upptökunni og lýsti Seðlabankastjórinn þar yfir að niðurstaðan væri umdeild og ekki traust og því verði henni skotið til Hæstaréttar. En þar viðurkennir hann að hugsanlega hafi rangir útreikningar legið að baki stjórnvaldssektinni.

„Seðlabankinn kann alveg að reikna einfaldar prósentur, þó að það sé hugsanlegt að einhver lögfræðingur í gjaldeyriseftirlitinu hafi gert mistök í upphafi.“

Heiðar Eiríksson sem var einn þeirra lögfræðinga sem starfaði í bankanum á þessum tíma segir þá ekki hafa unnið útreikningana fyrir bankann. Segir hann trú sína á útreikningunum hafa horfið og því hafi kærurnar verið dregnar til baka.