*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 17. mars 2016 17:14

Már: Skattur eða bindiskylda

Seðlabankastjóri segir að þróa þurfi stjórntæki til að draga úr fjármagnsinnstreymi til landsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þróa þarf stjórntæki sem hægt er að beita til að draga gagngert úr fjármagnsinnstreymi á grundvelli vaxtamunarviðskipta, að mati Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Í ávarpi hans á ársfundi Seðlabanka Íslands í dag, sagði hann að greiningarvinna standi nú yfir á þeim valkostum til boða standi. Þeir séu einkum skattur eða sérstök bindiskylda.

„Margvíslegir ágallar voru á ramma stefnunnar í peningamálum fyrir fjármálakreppuna. Þar vegur þungt að ekki var brugðist nægjanlega við óhóflegu fjármagnsinnstreymi sem stuðlaði að útlána- og eignaverðsþenslu og verulegri gjaldeyrisáhættu innlendra aðila sem var í ríkum mæli óvarin. Peningastefnan og stefnan í ríkisfjármálum spiluðu heldur ekki nægilega vel saman og sama má segja um aðrar ákvarðanir stjórnvalda sem hafa áhrif á eftirspurn. Álagið á peningastefnuna var því meira en ella sem ýtti enn frekar undir fjármagnsinnstreymi. Það ásamt sterkri eftirspurn stuðlaði að hærra raungengi en ella og þjóðhagslegu ójafnvægi sem birtist hvað skýrast í miklum viðskiptahalla. Þessi þróun ásamt bankakreppunni stuðlaði að gjaldeyriskreppunni sem skall á á fyrri hluta ársins 2008.“

Már sagði að nú eigi sér stað inngrip í gjaldeyrismarkaðinn sem hafi það hlutverk að draga úr sveiflum vegna tímabundins fjármagnsstreymis og draga úr skammtímaflökti í gengi. „Við búum því ekki lengur við það sem kallast hreint flot heldur það sem kallast stýrt flot. Settar hafa verið varúðarreglur sem draga verulega úr möguleikum bankakerfisins til að taka áhættu í erlendum gjaldmiðlum. Sett hefur verið á fót fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd sem vaka betur yfir áhættu í fjármálakerfinu en áður var og eru að þróa varúðarreglur og þjóðhagsvarúðartæki til að bregðast við kerfisáhættu. Það mun einnig auðvelda framkvæmd peningastefnunnar,“ sagði hann.

„Eitt mikilvægt skref er þó eftir og það lýtur að því að þróa stjórntæki sem hægt er að beita til að draga gagngert úr fjármagnsinnstreymi á grundvelli svokallaðra vaxtamunarviðskipta þegar slík viðskipti trufla verulega miðlun peningastefnunnar í gegnum vexti eins og átti sér stað s.l. sumar og haust. Að undanförnu hefur staðið yfir greiningarvinna á þeim valkostum sem til boða standa sem eru einkum skattur eða sérstök bindiskylda. Í báðum tilfellum mun þurfa lagabreytingar. Færa má fyrir því rök að slíkt tæki þurfi að vera komið á lögbókina um líkt leyti og fyrirhugað útboð vegna aflandskróna fer fram því að gangi það eins vel og stefnt er að er hugsanlegt að traust á Íslandi aukist enn og fjármagnsinnstreymi magnist.“

Már sagði þó að fjárstreymistæki til að hamla vaxtamunarviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem stuðla að óstöðugleika geti ekki nema við mjög óvenjulegar aðstæður orðið hluti af fyrstu víglínunni í baráttunni gegn verðbólgu og þjóðhagslegu ójafnvægi. „Slík tæki munu hafa neikvæðar hliðarverkanir og geta farið að mörkum alþjóðlegra skuldbindinga. En fjárstreymistæki þurfa að vera til taks ef á þarf að halda. Fyrsta víglínan hlýtur yfirleitt að vera hefðbundin hagstjórn peninga- og ríkisfjármála, studd af skipulagsumbótum og réttum efnahagslegum hvötum. Næsta víglína felst þá í fjármálalegum varúðarreglum og því sem hefur verið kallað þjóðhagsvarúðartæki sem miða að því að hamla óhóflegri skuldsetningu, efla viðnámsþrótt fjármálakerfisins og draga úr sveiflumögnun þess. Fjárstreymistækin eru svo yfirleitt í þriðju víglínu og ætlað að styðja við aðra þætti hagstjórnar ef þess gerist þörf. “