Seðlabankinn ætlar að rannsaka fyrir sitt leyti hvað gerðist á skuldabréfamarkaði í ágúst og september. „Eins og meðfylgjandi mynd sýnir hefur þróun ávöxtunarkröfu á ríkisverðbréfum í ágúst og september á sér ásýnd bólu en slíku ferli hefur oft verið lýst þannig að farið sé niður stigann og upp með lyftunni - eða öfugt þegar horft er á verð fremur en ávöxtun," sagði Már Guðmundsson á fundi Viðskiptaráðs í morgun og taldi að markaðsaðilar hefðu misskilið boðskap peningastefnunefndar við vaxtaákvörðun í ágúst. Einhverjir hefðu talið að afnám hafta hefði verið slegið á frest.

„Það er því líklegt að fleiri þættir hafi verið að verki en misskilningur varðandi yfirlýsingar peningastefnunefndar. Þar gæti verið um að ræða óvenjumiklar skuldsettar stöður, skipulag og virkni markaðarins og svo hefðbundin bóluhegðun þar sem taugarnar eru þandar til hins ítrasta rétt áður en bólan springur. Seðlabankinn mun fyrir sitt leyti rannsaka það sem þarna gerðist og draga af því viðeigandi lærdóma. En það gæti verið gagnlegt fyrir fleiri," sagði Már.

„Í öllu falli er ljóst að vilji markaðsaðilar taka skuldsett veðmál um að höftin verði hér svo árum skiptir þá er þeim það frjálst. En þeir gera það á eigin ábyrgð. Afnám haftanna á vissulega töluvert lengra í land en kannski ýmsir töldu í haust en áralangur frestur er ekki í samræmi við þau áform sem lýst hefur verið."