Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, er í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðiði, spurður út í trúverðugleika Seðlabankans eða réttara sagt skorti á trúverðugleika sem skynja megi á markaðinum fyrir aðgerðum bankans. Már segir að vísbendingar séu um að peningastefnan sé ekki trúverðug í þeirri merkingu að langtimaverðbólguvæntingar eru yfir markmiði.

Forsíða Viðskiptablaðsins 13. október 2011
Forsíða Viðskiptablaðsins 13. október 2011
© vb.is (vb.is)
„Þrjár mögulegar ástæður gætu legið fyrir því. Það gæti verið að menn telji okkur ekki hafa tækin sem þarf til. Að mínu mati er það vafasamt, því tækin okkar eru þau sömu og flestir seðlabankar hafa í litlum, opnum hagkerfum. Kannski höfum við ekki notað nógu mörg þeirra, en í grunninn eru þetta sömu tæki, til dæmis breytingar á vöxtum og lausafjárskyldu og inngrip á markaði.

Annar möguleiki er að talið sé að peningastefnunefndin vilji ekki ná verðbólgumarkmiðinu. Ég held að því trúi þó enginn.

Þriðji möguleikinn er efasemdir um að við fáum ekki að nota tækin til að ná markmiðinu, og þar af leiðandi sé bankinn ekki eins sjálfstæður og hann á að vera.“

Halda markmiðum yfir lengri tíma

Már segir trúverðugleikann aðeins vera byggðan upp með einum hætti.

„Það er að ná markmiðum sem að er stefnt og reyna að halda þeim yfir lengri tíma. Öðrum seðlabönkum hefur tekist þetta. Um leið og þessi trúverðugleiki er kominn þá virkar peningastefnan betur til sveiflujöfnunar.

Sagan verður að skera úr um þetta. Ég lít svo á að það sem við göngum í gegnum í dag er nokkurra ára stríð. Spurningin er ekki um það hvort við náum verðbólgumarkmiðinu eftir nokkra mánuði. Mestu máli skiptir að reka peningastefnuna þannig að ljóst sé að bankanum er alvara með að ná markmiðum sínum,“ segir Már. Ef einhver vantrú sé uppi um sjálfstæði bankans þarf að sigrast á henni.

„Í ljósi sögunnar mun trúverðugleikinn ef til vill aukast ef trú á önnur stjórntæki, eins og ríkisfjármálin, spila með. Ef sú trú er ekki til staðar þá þarf að styrkja hana. Í augnablikinu er það þó ekki sérstakt vandamál, vegna þess að ríkisfjármálastefnan er enn að herða að, hvað sem síðar kann að verða.“

Ítarlegt viðtal við Má Guðmundsson seðlabankastjóra um peningastefnuna birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.