Ísland getur á endanum tekið upp „stýrða flotgengisstefnu" með verðbólgumarkmið samkvæmt því sem Reuters fréttaveitan hefur eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra eftir vaxtaákvörðunina í gær.

Hann segir að peningamálastefnan verði mjög flókin í framkvæmd þegar skref verða stigin í afléttingu gjaldeyrishafta.

Um leið og þau skref hafi verið stigin sé spurningin hvert aðal markmið peningastefnunnar eigi að vera.

„Mun það vera verðbólgumarkmið þar sem gengið fær að fljóta eins og var áður? Ég held ekki," segir Már.

Hér verði frekar tekin upp stefna, að minnsta svo lengi sem Íslendingar standi fyrir utan evrusvæðið, sem hann kalli „bætt verðbólgumarkmið" eða „verðbólgumarkmið plús".

Á meðan aðalmarkmiðið sé verðstöðugleiki hafi Seðlabankin ákveðin áhrif á gengishreyfingar. Það sé mögulegt með sambland af „stýrðri flotgengisstefnu" og sterkum gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Þessi leið sé svipuð og farin var í Brasílíu þegar samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lauk þar. Þegar gjaldmiðillinn styrktist keyptu þeir gjaldeyri og greiddu lán sín til IMF og annarra erlendra aðila fyrr upp en til stóð.