*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 16. nóvember 2012 09:33

Már: Það myndi enginn kvarta ef stýrivextir hefðu ekki áhrif

Már Guðmundsson segir stýrivexti hafa áhrif á hagkerfið. Segir útflutning og þjóðarframleiðslu geta staðið undir skuldum.

Gísli Freyr Valdórsson
Haraldur Guðjónsson

Stýrivextir hafa vissulega áhrif á stöðu og þróun mála og það var rétt ákvörðun að hækka stýrivexti í vikunni.

Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun, aðspurður um áhrif stýrivaxta í landi gjaldeyrishafta.

Már svaraði því til að vissulega hefðu stýrivextir áhrif, annars væri engin ástæða til að gagnrýna ákvarðanir peningastefnunefndar líkt og gert væri.

„Hver myndi kvarta ef stýrivextir hefðu engin áhrif? Auðvitað hafa þeir áhrif,“ sagði Már á fundinum.

Þá var Már einnig spurður út í ummæli í ræðu sinni sem flutt var fyrr á fundinum, en þar sagði Már að skuldastaða ríkisins væri á bilinu hálf til ein landsframleiðsla. Nokkrir fundargestir, þar á meðal Ragnar Árnason hagfræðiprófessor, báðu Má um að skýra þessi ummæli sín frekar enda væri nokkur munur á því hvort að þjóðin skuldaði hálfa eða eina landsframleiðslu.

Már sagði að hvort sem væri þá skipti mestu máli að ríkið væri greiðslufært. Aðspurður sagði Már einnig að hann teldi landsframleiðslu og útflutning nægilegan til þess að standa straum af skuldum ríkisins í erlendri mynt.