*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 31. júlí 2019 18:40

Már: Þetta fór „betur en ég átti von á“

Fráfarandi seðlabankastjóri segir pólitískan óróa hafa haft áhrif á starf bankans. Arftaki verði að stýra „rétt“.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Már Guðmundsson, sem brátt mun láta af störfum sem seðlabankastjóri eftir tíu ár í því embætti, segist hafa verð undir það búinn að setjast í stól seðlabankastjóra árið 2009 þrátt fyrir þá óvissu sem þá ríkti á mörkuðum út um allan heim.

Hann segist hafa verið meðvitaður um þá efnahagslegu þætti sem þá voru undir eftir að hafa starfað hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss. Aftur á móti hafi verið erfiðara að eiga við þann pólitíska óróa sem þá ríkti.

Þetta segir Már í þættinum Norðurturninn sem birtur hefur verið á vef Íslandsbanka. „Það sem maður hafði kannski ekki hugsað út í var þessi pólitíski órói og hvernig skortur á trausti í samfélaginu gerði allt miklu erfiðara,“ segir Már.

„Hvað varðar stóru hlutina í efnahagsmálum, þá fór þetta betur en ég átti von á, sérstaklega á síðustu árum. En það hefur ekkert endilega allt að gera með hvernig var tekið á hlutum í kreppunni. En ég átti alltaf von á því að Ísland myndi rísa.“

Skynsamlegri stefnu fylgt þrátt fyrir pólítískan óstöðugleika

Már segir í viðtalinu að hann hafi setið sem seðlabankastjóri með nokkrum ríkisstjórnum. Allt það tímabili hafi verið gott samstarf við þá aðila sem mestu máli skipta varðandi hagstjórn við ríkisstjórnarboðið. Þó hafi þurft mikinn tíma til að afgreiða stór mál til að skapa traust og nefnir Már sem dæmi losum fjármagnshafta.

„Ég tel þó að sá tími sem fór í að byggja traustið og samstöðuna hafi verið mikilvægur,“ segir Már. „Það tryggði það að um þetta varð mjög góð sátt og það af leiðandi gekk það betur. Þessi pólitíski óstöðugleiki […] hefur ekki komið í veg fyrir það að í stórum dráttum og alltaf að lokum hefur verið fylgt tiltölulega skynsamri stefnu.“

Þá segir Már að stöðugleiki og viðskiptaafgangur hafi varðveist á þessu tímabili auk þess sem verðbólga og verðbólguvæntingar hafi verið í jafnvægi. Már segir einnig að útlitið fyrir næstu ár sé gott og  vænta megi þess að verðbólga verði nálægt markmiði bankans og vaxtastig verði lægra en við eigum að venjast.

Aftur á móti sé hægt að grafa undan þessum stöðugleika með óábyrgri efnahagsstefnu, peningastefnu,  hegðun á vinnumarkaði og öðrum þáttum.

Ekki markmið að krónan sé stöðug á ákveðnum stað

Í viðtalinu er rætt við Má um krónuna og stöðu hennar, þá sérstaklega með vaxandi umsvifum ferðaþjónustunnar sem í raun má segja að sé nokkuð nýleg útflutningsgrein á þeim mælikvarða að geta haft áhrif á gengi krónunnar.

Aðspurður um þetta segir Már að það sé ekki markmið bankans að krónan sé stöðug á ákveðnum stað. „Við erum með sveigjanlegt gengi og verðbólgumarkmið. Þessi sveigjanleiki getur stundum verið slæmur og stundum verið góður,“ segir Már.

Þá segir Már að það verði sífellt flóknara fyrir lítil, opin og fjármálalega samþætt hagkerfi með eigin mynt að reka sjálfsæða peningastefnu. Það verði þó ekki gert með sömu tækjum og reynt var fyrir fjármálakreppuna. Þar vísar Már til þess að Seðlabankinn hafi á þeim tíma ekki stundað nein inngrip á gjaldeyrismarkaði.

Ný forysta bankans verður að stýra rétt

Í viðtalinu fjallar Már einnig um þær breytingar sem munu eiga sér stað um næsta áramót þegar Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinast. Már ítrekaði í viðtalinu að Seðlabankinn hafi komið með innlegg inn í það ferli og átt þátt í því að móta það. „Niðurstaðan á heildina litið tel ég að sé vel unandi,“ sagði Már.

„Hvernig úr rætist mun kannski velta mjög mikið á þeirri nýju forystu sem tekur við Seðlabankanum. Það er hægt að búa til alls konar lög og skipulag, en að lokum verða þeir sem stýra skútunni að stýra henni rétt. Það þarf að vera gott samstarf innan stofnunarinnar og ég hef fulla trú að svo verði.“

Loks ræðir Már um samskipti við almenning og mikilvægi þess að Seðlabankinn leggi sitt af mörkum til að auka skilning almennings á starfsemi hans og stefnu.