Már Másson hefur gengið til liðs við Bláa Lónið og tekur sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bláa lóninu.

Már mun leiða nýtt svið hjá Bláa lóninu þar sem að helstu verkefni eru á sviði mannauðsmála og gæðamála ásamt innleiðingu stefnu og breytingastjórnar.

Áður starfaði Már hjá Íslandsbanka frá árinu 2008. Þar veitti hann samskiptasviði bankans forstöðu auk skrifstofu bankastjóra þar sem hann kom meðal annars að stefnumótun og breytingarstjórnun innan bankans. Hann hefur undanfarin fjögur ár verið forstöðumaður Dreifileiða og nýsköpunar hjá bankanum sem unnið hefur að innleiðingu stafrænna lausna á borð við Íslandsbanka Appið, Kass greiðslulausnina og almennrar rafrænnar þjónustu á vefnum.

Már er með MSc. gráðu í stjórnun og samskiptamálum frá USI í Lugano í Sviss og B.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá CBS í Kaupmannahöfn. Már er kvæntur Ernu Agnarsdóttur mannauðsstjóra hjá Actavis og eiga þau tvö börn.