Seðlabanki Íslands ákvað í dag að halda vöxtum óbreyttum í 5,25% eins og áður hefur komið fram . Á fundi þar sem að ákvörðunin var rökstudd. Þar var ákvörðun bankans rakin, en einnig sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að 16. nóvember, þegar næsta ákvörðun peningastefnumálanefndar verður tekin, þá verði lögð fram ný efnahags- og verðbólguspá.

Már reiknar með því að fyrstu skrefin við losun hafta verði tekin í kringum það tímabil.

„Við áttum kannski von á því eins og fleiri að þegar við kæmum til þessa fundar væri búið að samþykkja frumvarp um losun hafta, en það hefur enn ekki verið gert. Það stendur áfram að við viljum sterkan forða í aðdraganda losun hafta. Við viljum ekki þrepa markaðinn alveg í dróma. Þetta er miðjustefna sem við erum að fylgja. Hvort að það verður einhver breyting á því fyrir nóvember, það er ekki gott að segja núna. Það er líklega að tíðindi af þessu verði frekar á nóvemberfundinum,“ sagði hann í þessu samhengi.

Már telur einnig að umræðan um kostnað við því að viðhalda miklum gjaldeyrisforða Íslands sé á nokkrum villigötum. Hann telur í ljósi þeirrar stöðu sem ríki í heiminum sé mikilvægt að verja sig með gjaldeyrisforða. „Það er ekki nægilegt að vera með sveigjanlegt gengi. Um þetta er mikil umræða, það eru allir með stóran gjaldeyrisforða og við gerum okkur grein fyrir að þetta kostar. Þetta er eins og hver önnur trygging. Það má ekki gera of mikið úr þessum kostnaði. Það er ekki hlutverk peningastefnunnar að hámarka hagnað Seðlabankans. Þetta er meira langtímamál. Varðandi fjárhagsstöðu bankans er það ekkert vandamál,“ tekur Már fram.