Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á fundi Viðskiptaráðs í morgun að undirstöður hagvaxtar væru ekki vel traustar. „Um það bil 3% hagvöxtur eins og nú er spáð á árunum 2012 og 2013 er auðvitað ágætur í meðalárferði. En samantekinn er hagvöxturinn á árunum 2011 og 2012 veikur í ljósi þess mikla slaka sem nú er í íslensku efnahagslífi. Það sem meira er, undirstöðurnar eru ekki vel traustar þar sem framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtarins er neikvætt og fjárfesting mun verða verulega fyrir neðan sögulegt meðaltal jafnvel þó svo að hún muni aukast töluvert frá því sem nú er," sagði Már.

„Fjármunamyndun í heild mun nema tæplega 13½% af landsframleiðslu á þessu ári og atvinnuvegafjárfesting tæplega 9%. Á árunum 1980-2009 námu þessi hlutföll að meðaltali tæplega 22% annars vegar og tæplega 13% hins vegar. Hvað fjármunamyndun í heild varðar er hlutfallið í ár það lægsta á eftirstríðsárunum. Atvinnuvegafjárfesting var hins vegar lægri á árinu 1945, árin 1993-1995 og í fyrra. Jafnvel í lok spátímabilsins á árinu 2013 er fjármunamyndunin, sem þá verður 18% af landsframleiðslu, í lægra lagi miðað við það sem ætla má að þurfi til að halda uppi til lengdar uppi 3% hagvexti, sem er metið á rúm 20%," sagði seðlabankastjóri.