Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur væntingar um að hægt verði að ná fram 75% niðurskriftum á krónueignum erlendra kröfuhafa þrotabúa föllnu bankanna. Þetta kom fram í erindi hans á íslenska fjárstýringardeginum í HR sl. föstudag, en fjallað er um málið í Morgunblaðinu .

Már sagði að nauðasamningsleiðin yrði aðeins farin ef það næðist »pakkalausn« um hvernig losa mætti um krónueignir kröfuhafa. Talaði seðlabankastjóri um „krónuhreinsun“ í því sambandi, auk þess sem hann benti á að „fullt af kröfuhöfum væri nákvæmlega sama“ um krónueignir gömlu bankanna - þær nema um 450 milljörðum króna - og þeir vilji bara fá erlendu eignirnar.

Á meðal sviðsmynda sem kröfuhafar Glitnis og Kaupþings leggja upp með í nauðasamningaferlinu er að bjóða innlendum kröfuhöfum, sem eiga 7% allra krafna í búin, hærri endurheimtur - að því gefnu að þeir fái aðeins greiddar krónueignir. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur til að mynda verið nefnt að þeir fái 18% allra heimtna, en erlendir kröfuhafar fái á móti 82%.