Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur of mikla áherslu lagða á áhrif vaxtamunarviðskipta, í umræðunni um peningamálastefnuna. Hann segir aðstæður í dag allt aðrar en þær voru fyrir hrun, kerfið sé ekki það sama og áður. Ítarlegt viðtal við Má er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Menn verða áhyggjufullir þegar þeir heyra sama tón og fyrir hrun, þegar verið er að kynna forsendur stýrivaxtaákvarðana. Bankinn talar af velvilja um vaxtamunarviðskiptin og að þeim beri að fagna. Erum við að fara í sama farið og fyrir hrun, sem mun leiða til ójafnvægis þar sem bakslag er eina lausnin, líkt og þú lýsir?

„Aðstæður eru allt aðrar í dag en þær voru þá. Við erum ekki að tala um sama kerfi og áður. Öll eftirspurnarhlutföll, hlutfall launa í þjóðartekjum, viðskiptajöfnuður, einkaneysla og fleiri þættir, eru komnir hinum megin við langtímajafnvægið. Nú erum við með höft á fjármagnshreyfingar og lög í landinu sem heimila ekki gengisbundin lán.

Varðandi vaxtamunarviðskiptin þá má það ekki vera þannig að ef þú borðar of mikið af einhverju og færð í magann, þá ætlir þú aldrei að borða aftur. Þessi viðskipti hafa alltaf verið hluti af því hvernig peningapólitíkin virkar. Ef við ætlum að vera með sjálfstæða peningastefnu þá munu alltaf öðru hverju skapast aðstæður þar sem vextir hér eru lægri eða hærri en annars staðar, og fjármagn streymir inn eða út. Það er hluti kerfisins.

Ég held að óþarfi sé að hafa áhyggjur af þessu, svo lengi sem öfgarnar verði ekki eins og áður. Þar eru áhættuvarnir lykilatriði, að tryggja að bankar, fyrirtæki og heimili séu ekki í of mikilli óvarinni áhættutöku,“ segir Már.

Viðtal við Má Guðmundsson er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.