Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði til á síðasta fundi Peningastefnunefndar Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,75%. Þrír nefndarmenn studdu tillöguna. Tveir voru henni mótfallnir og kusu að vextir yrðu hækkaði um 0,25 prósentur.

Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum og kom það flestum greiningaraðilum á óvart enda höfðu þeir búist við 25 punkta hækkun. Helstu rökin fyrir væntri vaxtahækkun sögðu þeir meiri verðbólgu, hærri verðbólguvæntingar, gengislækkun krónunnar og hagvöxt.

Fram kemur í fundargerð Peningastefnunefndarinnar sem birt var í dag að þeir tveir sem studdu hækkun stýrivaxta hafi álitið verðbólguhorfur fara versnandi og að viðvarandi háar verðbólguvæntingar vega þyngra en rök seðlabankastjóra. Töldu þeir því nauðsynlegt að snúa við lækkun raunvaxta.

Í fundargerðinni kemur fram að Peningastefnunefndin hafi verið sammála um að ef verðbólguhorfur batni ekki verði líklegt að hækka þurfi nafnvexti á næstunni til þess að taumhald peningastefnunnar verði hæfileg.

Fundargerð Peningastefnunefndar