Ásakanir hanga í loftinu og reynt er að kynda undir ómálefnalegri umræðu, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann telur sig ekki hafa brotið af sér í launadeilu sinni við Seðlabankann. Umræðan sé mjög skaðleg, bæði fyrir sig og bankann. Már boðaði til blaðamannafundar um klukkan 16 í dag vegna málsins. Fram kom í umfjöllun mbl.is af blaðamannafundinum að Már beini því til bankaráðs að það hlutist til um að hraðað verði eftir föngum þeim þætti athugunar á málinu sem að honum snúi og að sem fyrst verði skorið úr um hvort ástæða sé til að ætla að hann hafi gerst á einhvern hátt brotlegur.

Fram kom í umfjöllun mbl.is að mikið af gögnum verði lagt fram og myndi athugunin taka eina og hálfa viku. Þetta mál taldi hann sömuleiðis ekki hafa áhrif á áhuga hans um að sækja um starf seðlabankastjóra á ný. Skipunartími Más rennur út í haust.

Morgunblaðið greindi frá því í síðustu vikuk að Seðlabankinn hafi greitt málskostnað Más vegna málssóknar gegn Seðlabankanum. Málið snerist um laun hans, sem voru lækkuð árið 2009 eftir að hann var skipaður í embætti. Kostnaður Seðlabankans vegna málsins nam rúmum 7 milljónum króna.