Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir við Reuters fréttastofuna að bankinn muni grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að tryggja það að krónan veikist eins lítið og mögulegt er. Í samtali við Reuters á mánudaginn segir Már að gengi krónunnar sé lykilatriði og að stærstu óvissuþættirnir tengist krónunni. „Veikingin sem við myndum sætta okkur við er mjög takmörkuð en það mun þó ráðast af aðstæðum. Ef viðskiptaskilyrði halda áfram að versna munum við leyfa gjaldmiðlinum að veikjast í takt við það.“

Hann segist þó gera ráð fyrir því að skilyrðin muni batna aftur á öðrum ársfjórðungi, en ef það gerist ekki muni bankinn endurskoða afstöðu sína til gengisins. Í ljósi þessa segir Már að bankinn sé að reyna að koma í veg fyrir að gengi krónunnar veikist of mikið.

Þessi ummæli Más eru ekki alfarið í takt við það sem hann sagði á stýrivaxtafundi í síðustu viku, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu og á vb.is . Þar sagði hann að inngrip Seðlabankans væru hugsuð til að draga úr sveiflum á krónunni og jafna gjaldeyrisflæðið á markaðnum. Tilgangurinn sé ekki að verja gengið og að inngrip Seðlabankans eigi ekki að skilja sem svo að botninum sé náð í gengi krónunnar.