Vegna mikillar uppsveiflu í byggingariðnaði og ferðaþjónustu liggur fyrir að flytja þarf inn þúsundir erlendra starfsmanna á næstu árum. Þróunin er þegar hafin og hefur skráðum starfsmannaleigum til að mynda fjölgað úr 4 í 11 á nokkrum mánuðum.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að starfsmannaleigum beri að greiða starfsmönnum sínum laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og skatta frá fyrsta degi. Gjarnan sé misbrestur á þessu og fyrirtækin mari eiginlega í hálfu kafi — starfsemi þeirra sé mjög ógegnsæ.

Að sögn Halldórs hefur ASÍ fylgst með starfsemi starfsmannaleiga en nú sé stefnt að því að gera enn betur í þeim efnum og þessa dagana er sambandið á ýta úr vör átakinu „Einn réttur — Ekkert svindl".

„Sú vinna felst í því að vera með ákveðið eftirlit úti á vinnustöðunum," segir Halldór. „Við ætlum að auka þetta eftirlit og fjölga vinnustaðaheimsóknum og þar með verðum við betur bær til að leggja mat á hversu víðtæk starfsemi starfsmannaleiga hér á landi er og hversu mikill fjöldi er þar undir. Við höfum óljósa tilfinningu fyrir þessu í dag en ekki staðfestar upplýsingar.

Við höfum séð allmörg dæmi um að þessi fyrirtæki, hvort sem þau eru innlend eða erlend, eru að reyna að flytja hér inn menningu þeirra landa sem þetta starfsfólk er fyrst og fremst að koma frá. Það eru gömlu Austur-Evrópu ríkin, þar sem kjarasamningar og öll réttindi eru með allt öðrum og miklu lakari hætti en við þekkjum."

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að samtökin láti ekki sitt eftir liggja í þessum málum og hafi verið samstarfi við verkalýðshreyfinguna um vinnustaðaeftirlit. SA hafi meðal annars í þrjú ár verið með tvo starfsmenn á launaskrá til að sinna þessu eftirliti. Þá séu SA og ASÍ einnig í óformlegu samstarfi með Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu, skattinum og lögreglunni vegna þessara mála.

Ómakleg gagnrýni

Að sögn Ragnars er staðan sem betur fer sú að lang stærsti hluti fyrirtækja sé með sín mál í lagi og greiði laun í samræmi við kjarasamninga. Þau fáu fyrirtæki sem séu ekki með sín mál í lagi komi óorði á hin. Hann segir að ferðaþjónustan hafi til að mynda fengið mjög ómaklega gagnrýni því þau fyrirtæki, sem séu að svíkjast undan í greininni, séu aðeins lítið hlutfall af heildinni. Hjá sumum þessara fyrirtækja sé ekki endilega um að ræða einbeittan brotavilja heldur séu stjórnendur þeirra einfaldlega að misstíga sig. Þetta eigi sérstaklega við um lítil fyrirtæki sem stækki hratt á skömmum tíma.

„Síðan eru til fyrirtæki sem eru á jaðrinum og eru að reyna að ná samkeppnisforskoti með því einfaldlega að brjóta rétt á starfsmönnum sínum," segir Ragnar og bætir því við að auðvitað þurfi að taka fast á slíkum málum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .