Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hefur hækkað um 1,86%, upp í 2.186,47 stig í viðskiptum dagsins, sem námu um heildina 1,9 milljörðum íslenskra króna.

Mest hækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 2,64%, upp í 739 krónur hvert bréf, í jafnframt mestu viðskiptunum með bréf í einu félagi í dag, eða fyrir 749,6 milljónir króna. Gengið er enn 7 krónum undir því þegar það fór hæst í 746 krónur 27. júlí síðastliðinn, en það er nú um 54,9% hærra en þegar það fór lægst á árinu, í 477 krónur, þann 17. mars síðastliðinn.

Bréf Icelandair hækkuðu næst mest, eða um 2,61%, í þó ekki nema 5 milljóna króna viðskiptum, en bréfin enduðu í 1,18 krónum. Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,90%, upp í 10,70 krónur, en viðskiptin námu 94 milljónum króna.

Einungis þrjú bréf lækkuðu í verði í kauphöllinni í dag, þar af VÍS mest, eða um 1,86% og fór gengi bréfa tryggingafélagsins niður í 10,55 krónur í 48 milljóna króna viðskiptum.

Hin tvö félögin sem lækkuðu í virði í dag eru Brim, sem lækkuðu um 1,41%, í þó ekki nema 3 milljóna króna viðskiptum, og nam lokagengi bréfanna 41,90 krónum, og svo Icelandic Seafood sem lækkaði um 0,48%, niður í 8,33 krónur, í 25 milljóna króna viðskiptum.

Gengi krónunnar veiktist í dag

Gengi krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema breska pundinu, sem lækkaði um 0,34% gagnvart krónunni og fæst það nú á 183,10 krónur.

Norska krónan styrktist mest gagnvart þeirri íslensku, eða um 0,26%, og fæst hún nú á 1,582 íslenskar krónur, en bæði Bandaríkjadalur og japanska jenið styrkstust um 0,19% gagnvart krónunni. Bandaríkjadalurinn fæst nú á 139,01 krónu, en jenið á 1,3079 krónur.

Evran styrktist svo um 0,12%, og fór í 164,36 krónur, en danska krónan styrksti um 0,09% og fæst á 22,089 krónur. Sænska krónan styrktist um 0,08% og fæst á 15,867 krónur, meðan svissneski frankinn styrktist um 0,03% og fæst nú á 151,84 krónur.