Marel hagnaðist um 4,5 milljónir evra á þriðja fjórðungi samanborið 5,8 milljón evra tap á sama tíma fyrir ári.

Rekstrarhagnaður (EBIT) á tímabilinu var 14,5 milljónir evra, sem er 8,5% af sölu, samanborið við 1,8 milljónir (2,7% af sölu) á sama tíma í fyrra.

Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 15,7 milljónir evra, sem er 9,9% af sölu, samanborið við proforma 7,3 milljónir (5,4% af sölu) árið áður.

Sala þriðja ársfjórðungs nam 170,6 milljónum evra samanborið við 66,1 milljónir á sama tíma árið áður. Jókst salan því um 158,1% á milli ára. Próforma sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi (án Food & Dairy deildar Stork) á þriðja ársfjórðungi 2008 nam 157,4 milljónum evra, sem er aukning um 16,2% samanborið við sama tímabil árið 2007.

„Við erum ánægð með rekstrarafkomu þriðja ársfjórðungs og afkomu fyrstu níu mánaða ársins,“ segir Hörður Arnarson forstjóri Marel í tilkynningu.

„Á þriðja ársfjórðungi héldum við áfram að einbeita okkur að samþættingu þeirra fyrirtækja sem við keyptum á undanförnum rúmum tveimur árum og sem gerðu okkur að leiðandi framleiðanda á búnaði til matvælavinnslu á heimsvísu. Hagræðingaraðgerðirnar sem við höfum gripið til hafa skilað þeim bætta rekstrarárangri sem við sjáum í dag en rekstrarhagnaður Marel Food Systems hefur farið stighækkandi á árinu,“ segir hann.