*

mánudagur, 18. janúar 2021
Frjáls verslun 2. desember 2020 07:02

Marel annað tveggja stærstu

Marel var annað stærsta fyrirtæki landsins árið 2019, með naumlega lægri veltu en Icelandair.

Andrea Sigurðardóttir
Sennilegt er að Marel muni tróna á toppi 300 stærstu fyrirtækja ársins 2020.
Aðsend mynd

Marel var annað stærsta fyrirtæki landsins árið 2019, með naumlega lægri veltu en flugfélagið Icelandair. Marel hefur sett sér metnaðarfull vaxtar- og afkomumarkmið til ársins 2026 og stefnir á 12% árlegan meðalvöxt yfir tímabilið 2017 til 2026. Gangi það eftir mun velta félagsins aukast í þrjá milljarða evra á tímabilinu.

Velta félagsins jókst um 7,2% á síðasta ári og nam tæpum 1,3 milljörðum evra. Hagnaður félagsins var 110,1 milljón evra á síðasta ári, sem samsvarar rúmum 15 milljörðum íslenskra króna á meðalgengi ársins.

Afkoman lækkaði um 12,4 milljónir evra frá fyrra ári, sem skýrist fyrst og fremst af einskiptis fjármagnsgjöldum og breytingum á fyrirtækjaskatti í Hollandi. Þá vísaði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, til þess að rekstrarniðurstaða á fjórða ársfjórðungi 2019 hefði lækkað milli ára vegna breytinga í tekjusamsetningu milli vörutegunda og heimshluta, sem hafði áhrif á framlegð og rekstrarkostnað.

Tímamótaskráning í Euronext

Um mitt síðasta ár urðu tímamót í sögu Marel þegar hlutabréf félagsins voru tekin til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam, en bréfin hafa verið skráð í kauphöll á Íslandi frá árinu 1992. Tvískráningin var skref í framþróun félagsins og er ætlað að styðja við vaxtarmarkmið og virðisaukningu þess.

Markmið skráningarinnar voru að auka sýnileika Marel, veita félaginu aðgang að breiðari hóp alþjóðlegra fjárfesta, auka seljanleika bréfanna og styrkja fjárhagsskipan félagsins til framtíðar. Félagið náði öllum lykilmarkmiðum sínum með tvískráningunni.

Halda sjó í heimsfaraldri

Marel hefur ekki farið varhluta af áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, en framlegð félagsins dróst verulega saman á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Faraldurinn hefur haft mest áhrif á verkefni kjötiðnaðar, þar sem nýtingarhlutföll og afköst hafa verið undir markmiðum. Allar framleiðslueiningar hafa þó verið í samfelldum rekstri í faraldrinum.

Hlutabréfaverð Marel lækkaði snarpt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Gengi bréfanna á fyrsta ársfjórðungi fór hæst í 648 krónur, þann 17. janúar síðastliðinn, en fór lægst í 477 krónur, þann 17. mars. Lækkunin varði ekki lengi, í lok mars tóku verð bréfanna að hækka á ný og höfðu náð hæsta gengi það sem af var ári þann 13. maí, þegar gengi bréfanna náði 650 krónum. Þann 21. október hafði gengi bréfanna hækkað um 24,2% það sem af var ári, að teknu tilliti til arðgreiðslna, úr 614 krónum í 750 krónur, og hafði gengi bréfa Marel aldrei verið hærra.

Ef fram fer sem horfir er líklegt að Marel komi til með að tróna á toppi stærstu fyrirtækja landsins að þessu ári liðnu. Marel hefur enda tekist að halda sjó í heimsfaraldrinum - á meðan flugfélagið Icelandair hefur verið í frjálsu falli.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út á dögunum.

Stikkorð: Marel