Marel birti í gær fyrsta ársfjórðungsuppgjör ársins 2016. Rekstrarniðurstöður voru birtar fyrir samstæðu fyrirtæksins, samanlagðan rekstur Marel og MPS fyrir allan ársfjórðunginn. Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2016 námu 233,9 milljónum evra, eða sem nemur rúmlega 32,9 milljörðum króna

Í uppgjörinu kemur fram að leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT)  á fyrsta ársfjórðungi 2016 var 35,2 milljónir evra, eða sem nemur 4,9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaðurinn er því 15,1% af tekjum félagsins. Pantanabókin stóð í 339,9 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs 2016.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að pantanastaða félagsins sé sterk eftir góða sölu sem nemur 254 milljónum evra í fyrsta ársfjórðungi. Góð dreifing sé á sölu á heimsvísu og sömuleiðis á milli staðlaðrar vöru og stærri verkefna. Stærri verkefni fyrir viðskiptavini koma m.a. frá Indlandi, Bandaríkjunum, Brasilíu og Evrópu. Sjóðstreymi hafi verið sterkt og rekstrarniðurstaða góð.

Tekjur Marel námu 234 milljónum með 15% EBIT og segir félagið að yfirtakan á MPS hafi haft jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu þess. Marel gerir ráð fyrir hóflegum innri vexti í tekjum og rekstrarhagnaði sameinaðs félags á árinu 2016 til samanburðar við tekjur á árinu 2015 sem námu 977 milljónum evra og leiðréttan rekstrarhagnað (EBIT) sem nam 133 milljónum evra.