Marel hefur boðað kaup á allt að 25 milljónum hluta í félaginu eða sem samsvarar 3,2% hlutafjár í félaginu. Miðað við núverandi gengi bréfa í Marel nema endurkaupin um 12,5 milljörðum króna.

Marel hagnaðist um 110 milljónir evra á síðasta ári, um 16 milljarða króna miðað við núverandi gengi, en stjórn félagsins leggur til að 44 milljónir evra. ríflega 6 milljarðar króna, verði greiddar í arð vegna afkomu síðasta árs.

Tilgangur endurkaupanna er að lækka hlutafé félagsins og standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins samkvæmt tilkynningu frá Marel . Félagið á nú 10,77 milljónir hluta eða sem nemur 1,4% af útgefnu hlutafé í félaginu.

Kvika banki hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar og taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum í félaginu og tímasetningu kaupa samkvæmt endurkaupaáætluninni, óháð félaginu og án áhrifa frá því. Endurkaupaáætlunin gildir til 4. september 2020 í síðasta lagi, en félaginu er heimilt að hætta við endurkaupin hvenær sem er.