Árið fór heldur betur vel af stað á aðalmarkaði Nasdaq Iceland, en hlutabréf allra félaganna hækkuðu á þessum fyrsta viðskiptadegi ársins.

Mest hækkun dagsins var með bréf í Reitum en þau hækkuðu um 5,93% í 757,8 milljóna króna viðskiptum. Icelandair kom þar næst á eftir með 5,79% í 244,9 milljóna króna viðskiptum og þá Eik sem hækkaði um 5,56% í 342,6 milljóna króna viðskiptum.

Þá hækkuðu bréf Sjóvár um 4,20%, Iceland Seafood um 3,89%, TM um 3,67%, VÍS um 3,54%, Brim um 3,19 og Síminn um 3,12%.

Minnst hækkuðu bréf Sýnar um 0,26% í 19,4 milljóna viðskiptum. Kvika hækkaði litlu meira eða um 0,29% í 384,9 milljóna viðskiptum og þá hækkaði Skeljungur um 0,67% í 45,5 milljóna króna viðskiptum.

Mikil velta á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum

Veltan í dag nam 7,2 milljörðum króna en þar af var mest velta með bréf Marel sem nam 1,3 milljörðum króna. Marel braut 800 króna múrinn í dag, en gengi bréfa félagsins var 825 krónur á hlut við lokun markaðs.

Næst mest var velta með bréf Reita, 757,8 milljónir króna líkt og áður hefur komið fram og þá var námu viðskipti með bréf Arion banka 608,2 milljörðum króna.

Vísitala OMX Iceland 10 hækkaði um 3,5% í dag og er nú 2.644,84 stig og hefur dagslokastaða hennar aldrei verið hærri.

Velta á skuldabréfamarkaði nam 4,1 milljarði króna, þar af nam velta óverðtryggðra ríkisskuldabréfa til 25 ára, RIKB 25 0612, 1,3 milljarður króna.