Hinn endurreisti Landsbanki keypti 8,26% hlut í Marel af Horni fjárfestingarfélagi, dótturfélagi sínu. Tilkynnt var um kaupin á vef kauphallarinnar með flöggun í morgun.

Eyrir Invest keypti einnig hluta af bréfum Horns, eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins. Eyrir Invest er nú langsamlega stærsti hluthafinn í Marel, með 34,7% hlut.

Horn fjárfestingarfélag er fjársterkt félag. Í síðast birta ársreikningi, fyrir árið 2009, var eigið fé félagsins tæplega 33 milljarðar króna. Skuldirnar voru 219 milljónir en eignirnar rúmlega 33 milljarðar.