Stjórn Marel Food Systems hf. (Marel) ákvað í dag að efna til hlutafjárútboðs meðal fagfjárfesta sem miðar að því að auka hlutafé félagsins um 15% (92,4 milljónir hluta).

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en útboðið verður með áskriftarfyrirkomulagi („book building“) og verða hlutir seldir á verðbilinu 63-65 krónur á hlut. Endanlegt útboðsverð og úthlutun hluta verða ákveðin í lok útboðsins.

Fram kemur að miðað við 15% hlutafjáraukningu er heildarsöluverðmæti útboðsins um 6 milljarðar króna eða um 32 milljónir evra.

„Tilgangurinn með útboðinu er að styrkja frekar fjárhagsgrunn Marel, draga úr gengisáhættu og lækka fjármögnunarkostnað,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að fjárfestum verður boðið að greiða fyrir ný hlutabréf með reiðufé og/eða skuldabréfum sem Marel hefur gefið út og skráð í kauphöll (MARL 06 1 og MARL 09 1). Þá gerir stjórn Marel ráð fyrir því að útboðið muni auka breidd hluthafahóps félagsins og auka hlutfallslega eign almennra hluthafa.

Arion banki (áður Nýja Kaupþing), Íslandsbanki og Landsbankinn hafa sameiginlega umsjón með útboðinu. Skilmálar útboðsins verða tilgreindir nánar í lýsingu sem félagið mun birta 24. nóvember 2009. Að auki verður útboðið sérstaklega kynnt fyrir fagfjárfestum 24.-25. nóvember 2009. Þá kemur jafnframt fram að hvenær sem er á sölutímabilinu áskilur stjórn Marel sér rétt til að samþykkja eða hafna áskriftarbeiðnum.

Þá kemur jafnframt fram að með útboðinu er stefnt að 15% hlutafjáraukningu Marel en stjórn félagsins áskilur sér þó rétt til að stækka útboðið og auka hlutaféð um hámark 138,6 milljónir hluta, sem jafngildir allt að 22,5% af núverandi heildarhlutafé félagins. Útboðið er í samræmi við heimild til hlutafjárhækkunar sem veitt var á aðalfundi félagsins 10. mars 2009.