Þrátt fyrir að gengi ríflega helmings skráðra félaga á aðalmarkaði hafi hækkað í viðskiptum dagsins lækkaði OMXI10 vísitalan um 0,89%. Munar þar mestu um talsverða lækkun á Marel og Eimskip. Icelandair hækkaði aftur á móti flugið eftir að hafa tilkynnt í gær um að félagið hefði skilað hagnaði á þriðja fjórðungi ársins.

Mest viðskipti í dag voru með bréf í Marel en ríflega þriðjung af veltu dagsins, sem var alls 5,7 milljarðar króna, mátti rekja til félagsins. Gengi bréfa í félaginu lækkaði um 2,79% en dagslokagengi þess var 836 krónur á hlutinn. Er það lægsta dagslokagengi þess síðastliðna sjö mánuði en félagið hefur þrátt fyrir það hækkað um 12,55% frá áramótum. Hæst fór hluturinn upp í 973 krónur í lok ágúst.

Eimskip dalaði einnig í viðskiptum dagsins eða um 2,58% í 58 milljóna viðskiptum. Önnur félög sem lækkuðu voru Eik, um 0,81%, og Íslandsbanki um 0,32%. Samanlögð velta félaganna þriggja nam 117 milljónum.

Á hinum endanum var það Icelandair sem hækkaði mest eða um rétt rúmlega fimm prósent. Tæplega helmingur viðskipta í dag var með bréf í flugfélaginu og veltan 970 milljónir. Næstmestu hækkunina mátti finna hjá Brim, rétt rúm tvö prósent, og þá hækkuðu VÍS og Kvika um tæplega 1,5% hvort félag.

Önnur félög sem hækkuðu náðu ekki yfir prósentið þótt Festi hafi hoggið nærri því með 0,94%. Origo hækkaði um 0,79% og þá hækkuðu Síldarvinnslan, Reginn og Reitir um á bilinu 0,6-0,7%. Önnur félög sem hækkuðu í dag voru Sjóvá, Arion og Sýn.

Viðskipti áttu sér stað með bréf í helmingi þeirra félaga sem skráður er á First North markaðnum og hækkuðu þau öll. Mest velta var með bréf Play, 213 milljónir, og hækkar félagið um 1,09%. 110 þúsund króna viðskipti í Solid Clouds ýttu félaginu aftur á móti upp um 1,10% og þá hækkaði Kaldalón um rúmt hálft prósent í nítján milljóna viðskiptum. Öllu rólegra var á skuldabréfahliðinni í dag en í gær en sextán viðskipti fyrir rúma tvo milljarða áttu sér stað.