*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 28. ágúst 2019 15:08

Marel fjárfestir í kanadísku fyrirtæki

Fjárfesting Marel í Worximity nemur nærri hálfum milljarði króna, en fyrirtækið er hluti af 4. iðnbyltingunni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Marel fjárfestir fyrir nærri 470 milljónir króna í kanadíska tæknifyrirtækinu Worximity Technology, sem hluta af ríflega 580 milljóna króna hlutafjárútboði félagsins.

Félagið lýsir sér sem leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni og alneti hlutanna, en tæknilausnum þess er ætlað að tengja allan búnað og starfsmenn í verksmiðjum, sem geri þeim kleyft að fylgjast með og mæla virkni þeirra í rauntíma og gera breytingar til að bæta hagkvæmni.

Félagið, sem stofnað var árið 2011, hefur þegar þjónað um 200 viðskiptavini og hjálpað til við að auka hagkvæmni um 1.000 verkefna víðs vegar um heiminn. Hjá félaginu starfa 25 starfsmenn en það hyggur á tvöföldun starfsmannafjöldans fyrir lok árs 2020.

Restin kom frá fyrri fjárfestum

Fjárfesting Marel nam 5 milljónum kanadadala, en 1,25 milljón dala komu til viðbótar frá fyrri fjárfestum í félaginu. Er fjárfestingunni ætlað að hraða þróunarvinnu og árangri á alþjóðlegum mörkuðum.

Samstarfið við Marel er sagt vera náttúrulegt framhald þess að áður en þeir stofnuðu félagið hafi framkvæmdastjórinn og stofnandi félagsins Yannick Desmarais starfað í matvælavinnslugeiranum og þekkt helstu framleiðendur þar. Þannig hafi Marel þróað Innova, hugbúnað fyrir matvælaframleiðslu sem sé samþættanleg Tileboard tækni Worximity.

Árni Sigurðsson framkvæmdastjóri stefnumótunar og þróunar hjá Marel segir Worximity vera mjög heppilegan samstarfsaðila fyrir matvælaframleiðendur til að hámarka hagkvæmni framleiðslu sinnar með stafrænni tækni.

„Hægt er að nota skalanlegar lausnir Worximity í mjög mismunandi matvælavinnslu. Vinnur hún mjög vel með alhliða tæknilausnum Marel, svo samstarfið er gott tækifæri til að ýta áfram vexti á sama tíma og matvælaframleiðendur nýta starfrænar lausnir til að bæta starfsemi sína,“ er haft eftir Árna í Prnewswire.

Stikkorð: Marel kanada Worximity