Hlutafjárboði Marel Food Systems lauk í gær. Alls bárust tilboð að nafnvirði kr. 20.074.615 á genginu kr. 70, að andvirði kr. 1.405.223.050 (um 10 milljónir evra), sem jafngildir 3,58% af heildarhlutafé félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þá kemur fram að stjórn félagsins ákvað að taka öllum tilboðum sem voru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum. Tilgangur útboðsins var að styrkja fjárhag félagsins enn frekar og auka viðskipti með hlutabréf þess.

„Marel Food Systems er þakklátt fjárfestum fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt félaginu með þátttöku sinni í útboði þessu sem og í fyrri útboðum. Vart þarf að taka fram að skilyrði á fjármálamarkaði eru afar óvenjuleg,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems í tilkynningunni.