Marel hefur gefið út skuldabréf fyrir sex milljarða króna að nafnverði til að fjármagna framtíðarvöxt félagsins, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Í tilkynningunni segir: "Tilgangur skuldabréfaútgáfunnar er að fjármagna framtíðarvöxt fyrirtækisins, í samræmi við þau vaxtarmarkmið sem kynnt voru á aðalfundi félagsins í febrúar síðastliðnum."

Ekki náðist í Hörð Árnason, forstjóra Marel, þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins reyndi að ná tali af honum, en í ræðu Árna Odds Þórðarsonar stjórnarformanns á aðalfundinum í febrúrar kom fram að ráðist verður í tvær til fjórar stefnumarkandi yfirtökur á næstu árum.

Þannig er gert ráð fyrir að heildarveltafélagsins þrefaldist á næstu þremur til fimm árum. Árni Oddur sagði að samþjöppun á næstu árum verði fyrst og fremst á meðal félaga sem starfa nú í Evrópu og Norður-Ameríku. Stærra og öflugra sameinað félag hefur þá meiri kraft til að leiða uppbyggingu nýmarkaða í Austur Evrópu, Asíu og Suður-Ameríku, sagði Árni Oddur.

Í tilkynningu frá Marel segir að fyrirtækið hefur jafnframt gert vaxtaskiptasamning á hluta fjárhæðarinnar sem fékkst með útgáfu skuldabréfanna, sem tryggir félaginu fjármögnunina í erlendum myntum með greiðslu vaxta og höfuðstóls að sex árum liðnum.

Skuldabréfin eru verðtryggð vaxtagreiðslubréf til sex ára með gjalddaga höfuðstóls þann 8. febrúar 2012. Fastir vextir bréfanna eru 6,00% . Skuldabréfin eru rafrænt skráð og sótt verður um skráningu skuldabréfanna í Kauphöll Íslands innan skamms.