Marel hefur gengið frá samningum um sölu á nýrri sérframleiddri flæðilínu fyrir hvítfisk við fiskframleiðanda í norðausturhluta Kína. Flæðilínan er meðal þess sem Marel sýnir á á sjávarútvegssýningunni í Brussel í næstu viku. Fjárhæð samningsins samsvarar 1-2% af ársveltu Marel. Fyrirtækið velti 668 milljónum evra, 111 milljörðum króna, á síðasta ári. Samkvæmt því má áætla að verðmæti samningsins hljóði upp á einn til tvo milljarða króna.

Í tilkynningu frá Marel kemur fram að aðstæður á kínverskum vinnumarkaði og hækkandi framleiðslukostnaður þar hafi skapað aukna þörf fyrir sjálfvirkni í verksmiðjum.

Fleiri íslensk fyrirtæki koma að flæðilínunni, svo sem 3X Technology og Skaginn.