Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert samkomulag við Marel um að félagið greiði 3,3 milljónir króna vegna brots félagsins á verðbréfaviðskiptum. Brot Marel felst í því að ekki hafi verið birt tafarlaust upplýsingar um það að Theo Hoen, þáverandi forstjóra Marel, hafi verið sagt upp störfum og stjórnarformaðurinn Árni Oddur Þórðarson ráðinn í hans stað 1. nóvember í fyrra.

Fram kemur á vef FME að 30. október 2013 hafi Marel tilkynnt FME að tekin hefði verið ákvörðun um frestun á birtingu innherjaupplýsinga. Hinn 1. nóvember 2013, um kl. 13:20, varð málsaðila ljóst að trúnaður um umræddar innherjaupplýsingar var ekki lengur tryggður. Sama dag klukkan 15:25 var birt tilkynning með umræddum upplýsingum. Þetta var 125 mínútum frá því málsaðila varð ljóst að skilyrði frestunar á birtingu innherjaupplýsinga voru ekki lengur til staðar og þar til upplýsingarnar voru gerðar opinberar. Klukkan 13:47 óskuðu forsvarsmenn Marel svo eftir því að viðskipti með hlutabréf í félaginu yrðu stöðvuð tímabundið í Kauphöllinni.

Sektargreiðslum sem þessar geta numið frá 50 þúsund krónum og upp í 50 milljónir. Fram kemur á vef FME að mögulegt er að ljúka málum sem þessum með sátt enda ekki um meiri háttar brot að ræða.