Hlutabréf Marels hafa aldrei verið jafn há og nú en þau hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 3,76% og standa nú í 746 krónum. Heildarvelta með bréf félagsins nam 301 milljón króna og voru viðskipti með bréfin 21. Markaðsvirði félagsins er nú um 575 milljarðar króna, markaðsvirði Haga um 59 milljarðar og virði Icelandair rúmlega 10 milljarðar. Marel birti hálfs árs uppgjör síðasta miðvikudag.

Næst mest hækkun var á bréfum Eimskip, um 1,43% og standa bréfin nú í 142 krónum hvert. Þriðja mest hækkun var á bréfum Brims, um 1,05% og standa þau í 43,4 krónum. Bréf Eimskip hafa lækkað um 26% á þessu ári en bréf Brims hækkað um 12,8%.

Mest lækkun var á bréfum Eikar, um 2,37% í 22 milljóna króna viðskiptum og standa bréf félagsins nú í 7,42 krónum hvert. Næst mest lækkun var á bréfum Kviku banka í 111 milljóna króna viðskiptum.

Úrvalsvísitala OMXI10 stendur nú í 2.177 punktum og hækkaði um 2,05% í 680 milljón króna viðskiptum. Vísitalan hefur því hækkað um 2,64% það sem af er ári en hún hefur hæst farið í 2.200 punkta 17. janúar síðastliðinn.

Bandaríkjadalur veikist og gull hækkar

Íslenska krónan styrktist gagnvart Bandaríkjadal um 0,97% í dag og fæst hann nú á 135 íslenskar krónur. Að auki styrktist krónan gagnvart pundinu sem nú fæst á 174 krónur en veiktist samanborið við evruna um 0,25% sem fæst nú á 159 krónur.

Dollarinn hefur veikst um 6,2% á síðustu þremur mánuðum, samkvæmt DXY vísitölunni. Hún hefur farið úr 99,86 punktum í 93,65. Tæplega 4,4 milljónir manna hafa greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum. 56 þúsund ný tilfelli voru skráð í gær.

Á meðan dollarinn hefur veikst hefur virði gulls aldrei verið hærra, 1.935 dollarar hver únsa. Verðið á únsu kostaði 1.546 dollara í upphafi árs og hefur því hækkað um 25% á þessu ári.