Hagnaður Marel á árinu 2015 nam tæpum 8 milljörðum króna samanborið við 1,6 milljarða árið 2014. Þá nam hagnaður á hlut árið 2015 10,5 krónum samanborið við 2,2 krónur árið 2014.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 16 milljörðum króna. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok ársins 2015 námu tæpum 20 milljörðum króna.

Skuldir fyrirtækisins námu þá 68 milljörðum króna, en eignir námu alls 130 milljörðum króna. Eigið fé Marel er því 62 milljarðar króna, sem gefur eiginfjárhlutfall upp á 47%.

Tekjur jukust um 15%

Tekjur Marel jukust um 15% á árinu 2015. Tekjur námu 114 milljörðum króna og var leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 14 milljarðar króna eða 12,2% af tekjum samanborið við 6,8 milljarða króna árið 2014, sem þá nam 6,8% tekna.

Í afkomutilkynningu félagsins kemur fram að á aðalfundi Marel, sem haldinn verður 2. mars næstkomandi, muni stjórn Marel leggja til að hluthafar fái greidd 2,25 krónur í arð á hvern hlut fyrir rekstrarárið 2015. Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 1,5 milljarði króna sem samsvarar um 20% af nettó hagnaði ársins 2015.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma undirritaði Marel samning um kaup á hollenska fyrirtækinu MPS meat processing system. Kaupverðið var 382 milljónir evra eða 55 milljarðar króna. Tekjur sameinaðs félags Marel og MPS á árinu 2015 námu 136 milljörðum króna og leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) rúmum 18 milljörðum króna.

Frábært ár fyrir Marel

Í fréttatilkynningu er haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að árið hafi verið frábært fyrir félagið:

2015 var frábært ár fyrir Marel. Tveggja ára áætlun okkar um einfaldara og skilvirkara Marel hefur nú runnið sitt skeið og skilað miklum árangri, sem m.a. má sjá í hagræðingu á vöruframboði og framleiðslu-einingum félagsins auk þess sem reksturinn hefur verið straumlínulagaður. Á sama tíma tókst okkur að þjónusta viðskiptavini enn betur sem skilaði 15% aukningu í tekjum og rekstrarhagnaði upp á 100 milljónir evra, samanborið við 49 milljónir evra árið 2014.

Með kaupunum á MPS styrkir Marel stöðu sína sem alþjóðlegur leiðtogi í framleiðslu og þjónustu á kerfum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Skrefin sem við tökum nú í kjötvinnslunni eru um margt lík þeim sem tekin voru fyrir átta árum í kjúklingavinnslu með yfirtöku Marel á Stork. Við væntum þess að yfirtakan á MPS muni auka hag viðskiptavina og hluthafa félagsins líkt og yfirtakan á Stork hefur gert.