Marel hagnaðist um 96,2 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 3,8 milljörðum króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaður félagsins 102,6 milljónum evra árið 2020. Tekjur félagsins námu tæplega 1,4 milljörðum evra, eða sem nemur um 201 milljarði króna, en árið áður námu tekjur ríflega 1,2 milljörðum evra. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins .

Pantanir námu 1,5 milljónum evra og jukust um 22% frá fyrra ári. Pantanabók félagsins stóð í 569 milljónum evra við lok síðasta árs, en til samanburðar stóð hún í 416 milljónum evra við loks árs 2020.

Handbært fé frá rekstri nam 212 milljónum evra við lok ársins 2021.

Félagið stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 með öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum, til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið. Árlegur meðalvöxtur tekna fyrir tímabilið 2017-2021 var 7%.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Við lokum árinu með meti í pöntunum upp á 401 milljón evra í fjórða ársfjórðungi. Pantanir yfir árið hljóða upp á 1,5 milljarð evra sem er 22% aukning á milli ára. Allar iðngreinar sýna vöxt og betri samsetningu pantana með aukningu í stöðluðum lausnum til að gera viðskiptavinum kleift að þjónusta ört vaxandi markað fyrir vörur sem eru tilbúnar til eldunar eða neyslu. Velgengni og vöxtur heldur áfram á þjónustumarkaði og í hugbúnaðarlausnum.

Við sjáum aukningu á tekjum á fjórða ársfjórðungi upp í 367 milljónir evra, á sama tíma er rekstrarframlegð (EBIT) fjórðungsins í takti við framlegð ársins, eða um 11,2%. Tekjur ársins aukast um 10% með 11,3% rekstrarframlegð. Sjóðstreymi frá rekstri í hlutfalli við framlegð helst sterkt, með um 15,6% framlegð af tekjum þrátt fyrir umtalsverða fjárfestingu í öryggisbirgðum til framleiðslu og þjónustu.

Mikil umbreyting er að eiga sér stað í allri virðiskeðjunni, með aukinn fókus á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir. Marel er í lykilstöðu til að styðja við þessa framþróun hjá viðskiptavinum okkar í átt að meiri snerpu og sveigjanleika til að bregðast við örum breytingum á kauphegðun neytenda í gegnum mismunandi dreifileiðir, svo sem netverslanir, veitingarekstur og stórmarkaði.

Ný verksmiðja Bell & Evans í Bandaríkjunum er gott dæmi um farsælt samstarf. Verksmiðjan er hönnuð frá grunni með stafrænum og samtengdum lausnum, sem tryggja sveigjanleika í vöruframboði til að mæta eftirspurn eftir öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum matvælum. Hátæknilausnir Marel ná frá býli til dreifingar á vörum, þar sem velferð dýra og gæði endavöru eru höfð að leiðarljósi. Mikil viðurkenning á verkinu er að það var fjármagnað með grænni fjármögnun sem er sú fyrsta í þeirra geira í Bandaríkjunum.

Með hliðsjón af sterkri, vel samsettri pantanabók og áframhaldandi spurnar frá viðskiptavinum eftir lausnum Marel, sem svara ákalli þeirra til að mæta kröfum neytenda, erum við bjartsýn á að okkur takist að ná markmiði okkar um 40% framlegð (e. gross profit) fyrir sölu-, stjórnunar- og nýsköpunarkostnað til samanburðar við 36,6% fyrir árið 2021. Það sem knýr áfram þann bata auk bættrar samsetningar pantanabókar, er virk verðstýring og aukin skilvirkni í sölu- og þjónustuleiðum til viðskiptavina ásamt sjálfvirknivæðingar og samlegðar stoðsviða  í framleiðslu, sölu og þjónustu. Eitt mikilvægasta og stærsta verkefnið sem við nú tökumst á við er fjárfesting og sjálfvirknivæðing á innflæði, vistun og dreifingu varahluta til að auka sveigjanleika og tryggja skjótan svörunar- og afhendingartíma um allan heim.

Það er ekki tilviljun ein að sala sé sterk og við horfum bjartsýnum augum á næstu misseri. Stöðug nýsköpun, ár frá ári og ákvörðun í miðjum heimsfaraldri að fara nær viðskiptavinum okkar um heim allan með stóraukningu í sölu- og þjónustufólki er klárlega að skila sér. Við væntum þess að auknar tekjur muni færa 19,4% stjórnunar- og sölukostnað (e. SG&A) á árinu 2021, í 18% markmið okkar fyrir árslok 2023. Fjárfesting okkar í nýsköpun nam sem fyrr 6% af tekjum sem er einnig innbyggt í markmið okkar um 16% rekstrarframlegð árið 2023.

Markaðsaðstæður, staða fyrirtækisins og fjárhagsstyrkur þess gera okkur nú kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang. Ánægjulegt er að sjá hvernig Marel og PMJ hafa náð landvinningum með fyrstu heildarlausnir til framleiðslu í andaiðnaði. Það sem er okkur Íslendingum nær er að við erum að taka stórt skref til að sinna fiskiðnaði enn betur með samþættingu og markaðssókn með sameinuðum teymum og vöruframboði frá Marel, Völku og Curio.

Það er mér sannur heiður að starfa með sjö þúsund frumkvöðlum innan raða Marel, sem í samstarfi við viðskiptavini eru að umbylta matvælaiðnaði til aukinnar hagkvæmni, gæða og sjálfbærni. Rekstrar- og vaxtarmarkmið okkar fyrir 2023 og 2026 standa."