Marel hagnaðist um 21,7 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 3 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi. Gengi bréfa félagsins hækkaði um tæp 5% við opnun markaða í morgun.

Til samanburðar nam hagnaður félagsins 21,2 milljónum evra á sama ársfjórðungi í fyrra, en félagið hagnaðist um 96,2 milljónir evra á síðasta ári. Tekjur félagsins námu 371,6 milljónum evra, eða sem nemur rúmum 51 milljörðum króna. Tekjurnar námu 334 milljónum evra á sama ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins.

Met var í mótteknum pöntunum og pantanabók, en pantanir námu 421,7 milljónum evra og jukust um 14,2% frá fyrra ári. Pantanabók félagsins stóð í 619,1 milljónum evra við lok ársfjórðungsins, en til samanburðar stóð hún í 455,3 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs 2021.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 32,7 milljónum evra við lok fyrsta ársfjórðungs, þar af námu birgðir 27,6 milljónum evra.

Á aðalfundi Marel hf., sem haldinn var 16. mars síðastliðinn, var samþykkt að greiða út arð til hluthafa að fjárhæð 38,7 milljónum evra, sem samsvarar um 40% af hagnaði ársins.

Félagið stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 með öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum. Auk þess stefnir félagið að um 40% framlegð fyrir árslok 2023.

Sjá einnig: Marel kaupir Wenger

Marel hefur undirritað samning um kaup á Wenger Manufacturing LLC, sem er sagður leiðandi framleiðandi á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger.

Heildarkaupverð er 540 milljónir dala eða um 70 milljarðar króna. Kaupverðið verður greitt með reiðufé og núverandi lánalínum en Marel hefur skrifað undir 150 milljón evra brúarlán við BNP Paribas Fortis SA/NV. Með kaupunum verður til nýtt tekjusvið hjá Marel sem er sagt renna fjórðu stoðinni undir viðskiptamódel félagsins til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Telur nýja stoðin til 10% tekna og 12% af sameiginlegri EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Við skilum enn einum metfjórðungi með 422 milljónir evra í mótteknum pöntunum. Framsæknar lausnir og ákvörðun okkar um að styrkja sölu- og þjónustunet enn frekar til að mæta væntum vexti er greinilega að bera ávöxt og hefur styrkt markaðsstöðu okkar og tekjuvöxt framundan. Á sama tíma er sölu- og markaðskostnaður hár sem hlutfall af tekjum til skemmri tíma.

Það er áhugavert að sjá hve mikið eftirspurn í alifugla- og fiskiðnaði er að vaxa. Á tímum verðhækkana, njóta þessir iðnaðir þess forskots að þurfa minna fóður til að framleiða hvert kíló af próteini (e. feed conversion ratio). Við aukin ferðalög og opnun veitingastaða er klárt að sushi og annað fiskmeti er aftur á matseðlinum. Á fyrsta ársfjórðungi var umtalsverður vöxtur í pöntunum í fiskiðnaði, góður vöxtur í alifuglaiðnaði, meðan pantanir í kjötiðnaði voru stöðugar á milli fjórðunga.

Tekjur í fjórðungnum voru 372 milljónir evra, á svipuðu róli og á fjórða fjórðungi en hækkuðu um 11% á milli ára. Tekjumarkmið okkar voru hærri fyrir ársfjórðunginn, sem byrjaði hægt vegna fjarveru starfsfólks í allri virðiskeðjunni og tilheyrandi truflunum í aðfangakeðju, en tekjur fóru stighækkandi þegar leið á fjórðunginn. Rekstrarframlegð var lituð af þessu og stóð í 8,4% EBIT. Á sama tíma var sjóðstreymi sterkt.

Við höfum gripið til aðgerða til úrbóta með breytingum á framkvæmdastjórn og áframhaldandi fjárfestingum í innviðum til að bæta flæði og rekstrarárangur. Við höfum beitt virkri verðstýringu með hækkun verðs síðustu tvo fjórðunga til að vega upp á móti hækkun kostnaðar í aðfangakeðjunni. Við gerum ráð fyrir að tekjur fari stighækkandi á árinu sem mun styðja við betri framlegð og arðsemi. Markmið okkar um 16% EBIT-framlegð í árslok 2023 standa óbreytt.“