Hagnaður Marels á öðrum fjórðungi nam 23 milljónum evra, um 3.460 milljónum króna, og dregst saman um fjórðung frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaður nam 31 milljónum evra. Frá áramótum hefur félagið hagnast um 44,5 milljónir evra. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar .

Tekjur félagsins á fjórðungnum námu um 328 milljónum evra sem er ríflega 7% aukning frá sama tímabili í fyrra. EBIT hagnaður félagsins nam 38,6 milljónum evra og EBIT framlegð félagsins var tæp 12% miðað við tæp 15% árið áður. Í fyrra sagðist félagið stefna að 16% EBIT framlegð til meðallangs tíma .

Handbært fé frá rekstri nam 67,3 milljónum evra og jókst um 13 milljónir á milli ára. Þá var handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta um 80 milljónir evra sem er það hæsta sem stjórnendur Marel hafa séð. Frjálst sjóðstreymi nam 54,6 milljónum evra og jókst um næstum 15% á milli ára.

Aftur metpantanir

Pantanir námu um 371 milljón evra sem er 91 milljónum evra meira en á sama tíma í fyrra. Þá stóð pantanabók félagsins í 499 milljónum evra á fjórðungnum miðað við 439 milljónir árið áður.

Annan fjórðunginn í röð skilaði Marel inn metpöntunum. „Sterk og vel samsett pantanabók er undirstaða markmiða okkar um auknar tekjur með bættri framlegð horft fram á veginn. Söluverkefni í vinnslu (e. pipeline), sem eru enn ekki staðfest í pantanabók, halda áfram að vaxa í öllum iðnuðum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í tilkynningunni.

Fjöldi útistandandi hluta var 753,8 milljónir og var hagnaður á hlut 3,1 evru sent á fjórðungnum miðað við 4,1 evru sent í fyrra.