*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 22. júlí 2020 18:40

Marel hagnast um 30,7 milljónir evra

Tekjur Marels námu 305,7 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi sem er um 6,4% samdráttur frá sama tímabili í fyrra.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Marel á öðrum ársfjórðungi ársins nam 30,7 milljónum króna, eða 4,86 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 34,3 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra, samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri.

Pantanir félagsins drógust saman um tæp 10% milli ára og námu 280 milljónum evra eða um 31 milljón minna en í fyrra. Pantanabók Marel stóð í 439 milljónum evra sem er um 25,6 milljónum minna en í lok fyrsta ársfjórðungs. Tekjur félagsins á öðrum fjórðungi ársins voru 305,7 milljónir evra en þær voru 326,5 milljónir í fyrra. 

Kostnaðarverð seldra vara nam 191,5 milljónum evra, sölu- og markaðskostnaður 34,5 milljónum, stjórnunarkostnaður 18,7 milljónum og kostnaður vegna rannsóknar og þróunar nam 18,6 milljónum evra. 

EBIT framlegð var nærri 15% en fyrirtækið stefnir að 16% EBIT framlegð og 40% brúttó framlegð til meðallangs tíma.Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026. Marel ætlar sér að vaxa hraðar en almennur markaðsvöxtur sem áætlaður er 4-6% til lengri tíma. Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári. 

Eignir Marels í lok annars ársfjórðungs námu 1,7 milljörðum evra, eða um 270 milljarðar íslenskra króna, og hafa lækkað um 154 milljónir evra frá lok árs 2019. Eigið fé lækkaði að sama skapi um 64,2 milljónir evra á fyrri helmingi ársins og nam 891,6 milljónum. Skuldir hafa lækkað um 90 milljónir frá áramótum og námu 815 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs. 

„Fyrri helmingur ársins hefur sannarlega verið viðburðarríkur og mikill prófsteinn á viðskiptamódel okkar. Í samvinnu við viðskiptavini og birgja höfum við tryggt stöðugt framboð á öruggum og hagkvæmum matvælum og þar með haldið einni mikilvægustu virðiskeðju heimsins gangandi. Ég er afar stoltur af því að tilheyra samheldnum hópi starfsmanna undir flaggi Marel,“ er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni , forstjóra Marels.

74 milljónir evra greiddir út til hluthafa á öðrum fjórðungi

Á aðalfundi félagsins þann 18. mars síðastliðinn var samþykkt arðgreiðsla til hluthafa að upphæð 43,9 milljónum evra fyrir rekstrarárið 2019. Vegna þessa voru greiddar út 38,1 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi og 5,8 milljónir evra munu verða greiddar út á þriðja ársfjórðungi vegna skattskuldbindinga.

Þann 10. júní tilkynnti Marel um lok endurkaupaáætlunar félagsins. Marel keypti 14,3 milljónir eigin hluta samkvæmt endurkaupaáætluninni fyrir 55,9 milljónir evra, þar af voru 9,9 milljónir hluta keyptir á öðrum ársfjórðungi fyrir 41,4 milljónir evra.