Hagnaður Marel á þriðja ársfjórðungi nam 23,2 milljónum evra, tæplega 3,5 milljörðum króna á gengi dagsins, samanborið við 29,4 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Tekjur námu 331,9 milljónum og jukust um tæplega 45 milljónir samanborið við sama tíma 2020. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri þriðja fjórðungs þessa árs.

Pantanabók félagsins stendur í 527,8 milljónum evra og hafa pantanir aukist um tæpan fjórðung samanborið við þriðja fjórðung 2020. EBIT nam 10,8% af tekjum eða 36 milljónum evra. Hlutfallið var 15,4% á samanburðartímabilinu. Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 19,7 milljónum evra.

„Á þremur síðustu ársfjórðungum hafa pantanir náð nýjum hæðum. Pantanir á þriðja ársfjórðungi námu 361 milljónum evra og samanlagðar pantanir fyrir fyrstu níu mánuði ársins jukust um 20% á milli ára. Sérstaklega áttu alifuglaiðnaður og laxaiðnaður góðu gengi að fagna í fjórðungnum þar sem viðskiptavinir eru að tryggja sér nýjar framleiðslulínur,“ er haft eftir forstjóranum Árna Oddi Þórðarsyni í tilkynningunni.

Vaxtarmarkmið félagsins eru áfram óbreytt en þau hljóða upp á 12% meðalvöxt árlega tímabilið 2017-26. Almennur markaðsvöxtur, samkvæmt áætlunum, hljóðar upp á 4-6% til lengri tíma en stefnt er að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.