*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 24. júlí 2019 17:09

Marel hagnast um 4,7 milljarða

Hagnaður Marel jókst um 16,3% á öðrum ársfjórðungi frá sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Marel hagnaðist um 34,3 milljónir evra eða því sem nemur um 4,7 milljörðum íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður félagsins um 16,3% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur á fjórðungum námu 326,5 milljónum evra og jukust um 10% milli ára. EBITDA félagsins nam 61,1 milljón evra og jókst um 13,4% milli ára. 

Rekstrarhagnaður aðlagaður fyrir afskriftir á óefnilegum eignum nam 49,6 milljónum evra og jókst um 14,8% milli ára. Við lok annars ársfjórðungs stóð pantannabókin í 459,4 milljónum evra en stóð í 474,7 milljónum við lok fyrsta ársfjórðungs. Pantanir á fjórðungnum námu 311,2 milljónum evra en námu 291,1 milljón á sama tíma í fyrra.

Uppgjörið var eilítið betra en afkomuspá Hagfræðideildar Landsbankans hafði gert ráð fyrir. Gerði deildin ráð fyrir að hagnaðar myndi nema 33,1 milljón evra, tekjur 313,9 milljónum og að EBITDA yrði 57,1 milljón evra. 

Í tilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni forstjóra félagsins:

“Annar ársfjórðungur var sannarlega viðburðarríkur fyrir Marel. Óhætt er að segja að skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam og útgáfa 15% nýs hlutafjár hafi borið hæst á fjórðungnum samhliða áframhaldandi vexti og góðri rekstrarafkomu.

Tekjur námu 327 milljónum evra, sem er 10% hækkun samanborið við sama tímabil í fyrra og rekstrarhagnaður jókst um 15%. EBIT framlegð var 15,2% til samanburðar við 14,6% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.

Mótteknar pantanir voru 311 milljónir evra sem er 7% aukning frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs en lítilleg lækkun frá sterkum fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Við sjáum sveiflur á mörkuðum þar sem aukning er í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, á meðan hægst hefur á stærri pöntunum í Evrópu og Norður Ameríku. Á móti kemur góður vöxtur í endurnýjunar- og viðhaldsverkefnum hjá viðskiptavinum okkar í Evrópu og Norður Ameríku.

Við erum afar þakklát fyrir það traust sem Marel var sýnt í hlutafjárútboðinu í tengslum við tvíhliða skráningu félagsins á alþjóðlegan hlutabréfamarkað. Þátttakendur voru virtir alþjóðlegir hornsteinsfjárfestar auk einstaklinga og fagfjárfesta, hér heima og erlendis. Alls tóku 4.700 fjárfestar þátt í útboðinu en fyrir skráningu félagsins í Euronext Amsterdam voru hluthafar félagsins 2.500 talsins. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam mun styðja við næstu skref í framþróun Marel þar sem aukinn seljanleiki bréfanna á alþjóðavísu veitir félaginu gjaldmiðil í tengslum við fyrirtækjakaup. Vöxtur félagsins er knúinn áfram af nýsköpun og markaðssókn ásamt ytri vexti.

Að því sögðu erum við á réttri leið með að ná vaxtarmarkmiðum okkar fyrir árið 2026, sem eru 3 milljarðar evra í tekjur og fyrsta flokks arðsemi. Í samstarfi við viðskiptavini okkar viljum við umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu með áherslu á fæðuöryggi, rekjanleika, sjálfbærni og hagkvæmni.“

Stikkorð: Marel