Marel er eitt stærsta og þekktasta útflutningsfyrirtæki landsins en það stendur framarlega á heimsvísu í þróun og framleiðslu á búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum og er með um 4.000 starfsmenn á sínum snærum. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir skýra stefnu fyrirtækisins og framúrskarandi starfsfólk hafa fyrst og fremst varðað veginn í rekstri þess.

Nýlegt uppgjör fyrirtækisins leiddi í ljós að hagnaður Marel hefur dregist töluvert saman. Spurður að því hvernig fyrirtækið ætlar sér að auka við afkomu fyrirtækisins á þessu ári segir Árni að niðurstaðan spegli ekki getu fyrirtækisins til fulls. „Heilt yfir hefur gengið ágætlega síðustu fimm árin, þar sem tekjur félagsins hafa aukist með innri vexti um 4% að meðaltali á ári á sama tíma og hagvöxtur á heimsvísu hefur verið lítill. Tekjur Marel á síðasta ári voru 661 milljón evra og rekstrarhagnaður var 43 milljónir evra. Við teljum þá niðurstöðu ekki vera í samræmi við getu fyrirtækis og samkeppnisstöðu þess. Við getum einfaldað skipulag okkur til að nálgast viðskiptavininn enn betur og höfum þegar tekið skref til að lækka fastan kostnað og takast betur á við sveiflur í eftirspurn á hærra og stöðugra hagnaðarstigi til framtíðar.

Þar sem aðeins örlítill hluti af starfsemi Marel fer fram á Íslandi segir Árni að íslensk stjórnvöld hafi ekki teljandi áhrif á rekstur fyrirtækisins. Engu að síður telur hann gjaldeyrishöftin hamlandi afl í samfélaginu. „Það er mjög mikilvægt fyrir hvert samfélag að hafa hálaunastörf sem tengjast háskólasamfélaginu í hverju landi. Gjaldeyrishöft gera það að verkum að nýir sprotar ná ekki árangri á alþjóðamörkuðum og er ekki við það búandi til lengdar að vera með gjaldeyrishöft og gjaldmiðil sem ekki er gjaldgengur í alþjóðaviðskiptum. Marel hefði aldrei orðið það fyrirtæki sem það er í dag ef umhverfið hefði verið eins og það er nú.“

Viðtalið við Árna Odd Þórðarson birtist í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu í morgun. Þar er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .