IFS Greining telur framleiðslufyrirtækið Marel hf. vera undirverðlagt á innlendum hlutabréfamarkaði og í samanburði við erlend félög í matvinnslugeiranum, og mælir því áfram með kaupum í hlutabréfum þess.

Þetta kemur fram í virðismati IFS á Marel þann 31. október. Landsbankinn gaf einnig út virðismat á Marel í vikunni þar sem komist er að ámóta niðurstöðu.

Virðismatsgengið er 2,3 evrur á hlut (285,2 kr. miðað við EUR/ISK = 124,0) og markgengið til tólf mánaða er 2,54 evrur á hlut (314,96 kr.). Virðismatsgengið hækkar frá síðustu spá úr 2,13 evrum á hlut. Markaðsvirði hlutafjár í Marel er metið á 1,65 milljónir evra eða 204,97 milljarða króna. Hlutfall virðismatsgengis af markaðsverði er 15,9%. Hagnaðarvon (e. upside potential) er 15,9%.

Frá byrjun árs 2011 hefur gengi hlutabréfa í Marel hækkað um tæp 137%.

Stefnir í besta ár frá upphafi

Afkoma Marel á þriðja ársfjórðungi var að mestu leyti í samræmi við afkomuspá IFS. Tekjur voru 234,8 milljónir evra og tekjuvöxtur 23,8% frá þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Vöxtur tekna frá áramótum er 2,2%. EBITDA var 41,5 milljónir borið saman við 31,7 milljónir fyrir ári síðan, en EBITDA-framlegð er 17,2%. Hagnaður var 17,3 millj- ónir, 4,6% yfir væntingum IFS, en fyrir ári var hann 14,7 millj- ónir og 9,8 milljónir árið þar á undan. Hagnaðarhlutfallið er 8,7% síðastliðið ár, arðsemi eigin fjár 13% og arðsemi heildarfjármagns 11,8%.

Pantanabókin stendur í 305,1 milljónum evra, en við lok þriðja ársfjórðungs 2015 stóð hún í 187,7 milljónum. Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 33,2 milljónum borið saman við 29,7 milljónir evra fyrir ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .