Kauphöllin opnaði nokkuð græn í upphafi dags en í lok hans hafði þróunin snúist við og hækkuðu einungis hlutabréf Marel í viðskiptum dagsins. Bréfin hækkuðu um 2,27% í 206 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 720 krónum hvert. Marel tilkynnti um kaup á þýsku félagi sem sérhæfir sig í skurðtæknilausnum í matvælaiðnaði og er kaupverðið um 23 milljarðar króna.

Sjá einnig: Marel kaupir félag fyrir 23 milljarða

Alls lækkuðu 15 félög í viðskiptum dagsins, þar af lækkuðu fimm félög um meira en 2%. Samt sem áður hækkaði Úrvalsvísitalan (OMXI10) um ríflega 1,1% en markaðsvirði Marel er um 60% af heildarvirði vísitölunnar.

Mest lækkuðu bréf Regins um 4,79% en þau hafa hækkað talsvert undanfarna daga. Þau standa nú í 14,9 krónum hvert. Næst mest lækkuðu bréf Sýnar um 3,4% og standa í 27 krónum. Þriðja mest lækkun var á hlutabréfum Icelandair. Þau standa nú í 1,15 krónum hvert en útboðsgengi bréfanna í komandi hlutafjárútboði verður ein króna á hlut.

Mest velta var með hlutabréf Arion banka sem nam 484 milljónum króna en virði bréfanna hélst óbreytt. Heildarvelta dagsins nam 2,3 milljörðum króna í 219 viðskiptum.