Marel hlaut Þekkingarverðlaun FVH 2012 og viðskiptafræðingur ársins var valinn Skúli Gunnar Sigfússon, stofnandi Subway á Íslandi. Auk Marel voru fyrirtækin Eimskip og Landspítali tilnefnd til þekkingarverðlaunanna en dómnefnd hafði breytingar sem orðið hafa í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja að leiðarljósi við val sitt segir í fréttatilkynningu.

Í niðurstöðu dómnefndar segir meðal annars: Marel hefur vaxið úr litlu íslensku fyrirtæki 1983 sem framleiddi vogir og síðar annan tækjabúnað fyrir sjávarútveg í stórt alþjóðlegt fyrirtæki með þá framtíðarsýn að vera í fararbroddi í þróun og markaðssetningu á tækjabúnaði og þjónustu við matvælaframleiðendur. Fyrirtækið varð almenningshlutafélag 1991 og hlutabréf þess voru skráð í kauphöll 1992. Það hefur því lengsta skráningarsögu meðal núverandi skráðra fyrirtækja í íslensku kauphöllinni. Núverandi starfsemi Marel byggist á stefnu sem mótuð var 2006 en þá hafði það þegar keypt nokkur fyrirtæki erlendis.

Skúli Gunnars Sigfússon
Skúli Gunnars Sigfússon
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Skúli Gunnar Sigfússon var valinn viðskiptafræðingur ársins 2011. Í niðurstöðu dómnefndar segir að Skúli sé eigandi Subway skyndibitakeðjunnar á Íslandi en hann hafi hafið rekstur fyrsta Subway staðarins á Íslandi árið 1994 og nú séu Subway staðirnir orðnir 20 talsins hér á landi og er Ísland einn af sterkustu mörkuðum Subway í heiminum. Auk Subway staðanna kemur Skúli að rekstri Hamborgarafabrikkunnar þar sem hann er einn eigenda, hann á ísbúðina Ísgerðina í Reykjavík og tvo Subway veitingastaði í Finnlandi.

Ennfremur rekur Skúli Sólstjörnuna ehf. sem starfar við dreifingu matvæla á Íslandi og Sjöstjörnuna ehf. sem sem er fasteignafélag með fasteignir að verðmæti um 1,7 milljarða króna. Skúli hefur reynst afar farsæll í sínum rekstri en rekstur Subway á Íslandi hefur frá upphafi gengið vel og skilað góðri afkomu. Skúli hefur lagt áherslu á að byggja reksturinn jafnt og þétt upp án þess að reiða sig á utanaðkomandi fjármagn. Stjarnan ehf., rekstrarfélag Suibway á Íslandi, er óskuldsett félag og varfærin fjármagnsuppbygging félagsins á ríkan þátt í því hversu vel félagið hefur staðið af sér sveiflur í íslensku efnahagslífi undanfarin ár.