Mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag voru með bréf Marel, eða fyrir 1,1 milljarð króna, en þau hækkuðu um 1,21% í viðskiptunum og enduðu í 585 krónum. Er það rétt um 30% allra viðskipta í Kauphöllinni í dag, en þau námu 3,8 milljörðum króna, og hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,70%, upp í 2.075,08 stig.

Icelandair hækkaði síðan mest, eða um 2,71%, í litlum viðskiptum þó eða fyrir 65 milljónir króna og var lokagengi bréfa félagsins 7,57 krónur.

Næst mest hækkun var svo á gengi bréfa Skeljungs, nam hún 2,56%, og fór gengið upp í 9,23 krónur, en viðskiptin með bréf félagsins námu 110 milljónum króna. Þriðja mesta hækkunin var loks á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,87%, upp í 10,37 krónur, í 131 milljóna króna viðskiptum.

Mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Heimavalla, eða um 1,52%, en í mjög litlum viðskiptum, eða fyrir 6 milljónir króna og var lokagengi bréfanna 1,30 krónur. Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Símans, eða um 1,22%, í heldur meiri viðskiptum, eða fyrir 324 milljónir króna, og endaði gengi bréfanna í 5,28 krónum.

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum nema japanska jensins sem veiktist um 0,29%, í 1,1379 krónur. Evran styrktist um 0,29%, í 137,44 krónur, Bandaríkjadalur styrktist um 0,52%, í 124,56 krónur og breska sterlingspundið fór upp um 0,69% í 162,20 krónur.