*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 19. janúar 2021 16:22

Marel í nýjum hæðum í 850 krónum

Úrvalsvísitalan nálgast 2.700 stigin og bréf Marel ná sögulegu hámarki eftir tiltölulega grænan dag á markaði.

Ritstjórn
epa

Einungis tvö félög lækkuðu á hlutabréfamarkaði í dag, og náði Úrvalsvísitalan, OMXI10, nýjum sögulegum hæðum í 2.697,64 stigum eftir 1,11% hækkun í 5,7 milljarða króna heildarviðskiptum. Verð bréfa Marel náðu nýju sögulegu hámarki í 850 krónum eftir 1,19% hækkun, en verð bréfanna hefur hækkað um 4,4% frá því að þau voru í 814 krónum 11. janúar síðastliðinn.

Af heildarviðskiptum dagsins voru viðskiptin með bréf Arion banka langsamlega mest, eða 2,9 milljörðum króna, eða sem samsvarar helmingi allra viðskipta dagsins á hlutabréfamarkaði. Bréf bankans hækkuðu í þeim um 1,94%, upp í 100 krónur hvert, og var sú hækkun sú þriðja mesta í einu félagi í kauphöllinni í dag.

Viðskiptablaðið sagði frá því á dögunum að einn af erlendu vogunarsjóðunum sem átt hafa stóran hlut í bankanum frá því að þeir keyptu hlut í honum af þrotabúi gamla Kaupþings sem þeir áttu í sjálfur hefði selt fyrir 4 milljarða króna á miðvikudaginn í síðustu viku. Þá hafði félagið, Sculptor Capital Management, selt fyrir 10 milljarða á nokkrum vikum í bankanum.

Brim hækkaði hins vegar mest, eða um 3,93%, upp í 55,60 krónur, í 218 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa sjávarútvegsfélagsins í þeim upp í 55,60 krónur. Hækkun bréfa Reginn var síðan sú næst mesta eða um 2,88%, upp í 23,25 krónur, í 117 milljóna króna viðskiptum.

Næst mestu viðskiptin á eftir viðskiptin með bréf Arion banka voru með bréf Marel eða fyrir 669,2 milljónir króna og fór gengi bréfanna upp um 1,19%, upp í 850 krónur í þeim, sem er eins og áður segir sögulegt hámark. Verð bréfa félagsins fór lægst síðasta árið þann 16. mars síðastliðinn í 481 krónu hvert, en verðið hefur hækkað um 77% síðan þá, eða á rétt rúmlega 10 mánuðum.

Eins og áður segir lækkuðu einungis tvö félög í verði í dag, Iceland Seafood sem lækkaði um 1,03%, niður í 13,46 krónur í 35 milljóna króna viðskiptum og VÍS sem lækkaði um 0,35% einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 21 milljón krónur og nam lokagengi bréfanna 14,25 krónum.

Þess utan stóðu bréf Haga og Origo í stað, það síðarnefnda í engum viðskiptum en það fyrrnefnda í 276 milljóna króna viðskiptum.

Evran komin upp í 156 krónur á ný

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum utan Bandaríkjadals og japanska jensins. Dalurinn veiktist í viðskiptum dagsins um 0,12% gagnvart krónu, og fór í 129,07 krónur, meðan japanska jenið veiktist um 0,46%, niður í 1,2408 krónur.

Hins vegar styrktist evran um 0,26% gagnvart krónunni, upp í 156,48 krónur, breska pundið styrktist um 0,11%, upp í 175,66 krónur, en hækkun norsku krónunnar var sú mesta af helstu viðskiptamyntunum, eða um 0,40%, up í 15,104 krónur.