Marel hf. hefur keypt alla hluti í danska matvælaframleiðandann Scanvaegt International AS. og nemur kaupverðið 109,2 milljónum evra ( 9,9 milljarða króna). Samkvæmt tilkynningu frá Marel mun velta samstæðunnar í kjölfarið aukast um ríflega 100% á árinu en þar munar einnig um nýleg kaup félagsins á breska fyrirtækinu AEW Delford.

Í tilkynningu frá Marel segir að í kjölfar kaupanna verði Marel og Scanvaegt sterkari á sínu sviði, í þróun og markaðsetningu á alþjóðlega matvælamarkaðinum. Fyrirtækin tvö munu starfa áfram sem tvær aðskildar rekstrareiningar með sín eigin vörumerki en stjórnendur Marel sjá fyrir sér að sala geti stóraukist í kjölfar kaupanna þar sem nýjar vörur verða þróaðar og settar á markað með samvinnu á milli fyrirtækjanna tveggja.

Í tilkynningu frá Marel segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel að stjórnendur Marels líti á þetta sem stórt skref í átt að því markmiði að vera í forystu á alþjóðlegum matvælamarkaði og að velta félagsins á næstu þremur til fimm árum muni þrefaldast. Hörður segir að þegar samlegðaráhrifin af kaupunum verði komin fram að fullu munu fyrirtækin geta komið til móts við þarfir viðskiptavina sinna með auknum hætti meðal annars með því að lækka kostnað og auka vöruúrval.

Lárus Ásgeirsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Marel, mun leiða starfsemi Scanvaegt, ásamt Erik Steffensen núverandi framkvæmdastjóra og því stjórnunarteymi sem þar er. Sigurpáll Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Marel, mun jafnframt bætast í hóp stjórnenda. Lars Grundtvig stjórnarformaður Scanvaegt hefur nú eignast 18% hlut í Marel og verður þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins.

Hjá Marel samstæðunni starfa nú yfir 2000 starfsmenn flestir þeirra í Danmörku eða 795, 350 á Íslandi og 380 í Bretlandi, auk starfsmanna á um 30 söluskrifstofum víðsvegar um heiminn.