Marel hefur undirritað samning um kaup á hollenska fyrirtækinu MPS meat processing system. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu fyrirtækisins. Kaupverðið er 382 milljónir evra eða 55 milljarðar króna.

„MPS er alþjóðlegur leiðtogi í framleiðslu á búnaði fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Kaupin styðja því við framboð Marel á búnaði fyrir öll stig kjötvinnslu sem leiðir til betri samkeppnisstöðu félagsins í kjötiðnaði á heimsvísu. Engin skörun er í vörulínu félaganna tveggja og þá passar alþjóðleg starfsemi félaganna vel saman sem skapar grundvöll fyrir áframhaldandi vöxt og arðsemi.

Með kaupunum styrkir Marel stöðu sína sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á kjúklingi, kjöti, og fiski. Kaupin eru að fullu í samræmi við áður tilkynnta stefnu Marel um frekari vöxt og aukna arðsemi félagsins til frambúðar. Kaupin styðja við framboð Marel á heildarlausnum í kjötvinnslu og ýta einnig undir jafnari tekjuskiptingu, bæði á milli mismunandi iðnaða og markaðssvæða. Í sameinuðu félagi er áætlað að kjötiðnaður muni skila um það bil 30% af heildartekjum og EBITDA á ársgrundvelli,“ segir í frétt á vefsíðu Marel.

Þar segir ennfremur að áætlaðar árstekjur MPS á þessu ári séu 150 milljónir evra, eða 21,2 milljarður króna, og EBITDA á sama tímabili um 40 milljónir evra, eða jafnvirði 5,7 milljarða króna. Til samanburðar voru tekjur Marel í fyrra um 713 milljónir evra í fyrra og EBITDA fyrirtækisins um 63 milljónir evra. MPS er með um 670 starfsmenn. Höfuðstöðvar þess eru staðsettar í Hollandi og fer framleiðsla að mestu fram í Hollandi og Kína.

Svipuð samrunanum við Stork Food Systems

Í fréttinni á vef Marel er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að MPS passi vel við Marel og muni styrkja félagið. Félögin þekkist vel enda hafi þau sett upp fjölmargar verksmiðjur fyrir viðskiptavini í kjötiðnaðinum um allan heim. Saman séu fyrirtækin sterkari og í lykilstöðu við að veita kjötframleiðendum heldarlausnir.

Yfirtakan muni styrkja stöðu Marel sem markaðsleiðtoga á ört vaxandi markaði og auka samkeppnishæfni og arðsemi til lengri tíma litið. Sameiningin sé að mörgu leyti svipuð samruna Marel og Stork Food Systems fyrir átta árum síðan. Sú sameining hafi skilað áframhaldandi innri vexti og frábærum heildarlausnum sem leiddi til mikillar virðisaukningar fyrir viðskiptavini og hluthafa.

Hafa tryggt hagstæða langtímafjármögnun

Hluthafar MPS, þeirra á meðal stjórnendur MPS, munu nota hluta kaupverðsins í að fjárfesta í Marel. Samkvæmt samkomulagi munu þeir kaupa 10,8 milljón hluti í Marel á genginu 213 kr. á hlut og skuldbinda þeir sig til að eiga hlutina í 18 mánuði frá kaupunum hið minnsta.

Samhliða yfirtökunni hefur Marel tryggt hagstæða langtímafjármögnun til 5 ára fyrir félagið í heild, að því er segir í fréttinni á vef fyrirtækisins . Fjármögnunin er tryggð af Rabobank og nemur nærri 670 milljónum evra og eru skilmálar og vaxtakjör í samræmi við núverandi markaðsaðstæður. Fjármögnunin gefur Marel aukin fjárhagslegan sveigjanleika og styður við vöxt og framgang félagsins.

„Fjárhagsleg staða Marel verður sterk eftir sem áður og skuldahlutfallið verður innan þeirra marka sem langtímastefna félagsins kveður á um,“ segir jafnframt.

Kynningarfundur um kaupin verður haldinn mánudaginn 23. nóvember klukkan 16.