Marel hefur samþykkt að kaupa Sulmaq, brasilískan framleiðanda búnaðar fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Árlegar tekjur Sulmaq nema um það bil 25 milljónum evra. Búist er við að kaupin gangi formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2017 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Ekki er þörf á samþykki samkeppnisyfirvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu Marel til Kauphallarinnar varðandi uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung.

Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu Marel í Suður-Ameríku og tryggja betri aðgang að stækkandi vaxtarmörkuðum fyrir nauta- og svínakjöt.  Til skemmri tíma litið munu kaupin ekki hafa efnisleg áhrif á rekstrarniðurstöðu Marel. Brasilía ein og sér er annar stærsti framleiðandi nautakjöts á heimsvísu og þriðji stærsti framleiðandi kjúklingakjöts.

Í tilkynningunni er eftirfarandi haft eftir Árna Odd Þórðarsyni, forstjóra Marel, um kaupin á Sulmaq:

„Við erum einnig að styrkja stöðu okkar í Suður-Ameríku með kaupum á Sulmaq sem hefur verið í fararbroddi í framleiðslu á búnaði fyrir fyrsta stig kjötvinnslu í þessum heimshluta. Undanfarna tvo áratugi hefur Marel notið mikillar velgengi í kjúklinga- og fiskiðnaði í Suður-Ameríku og nú erum við að undirbúa okkur fyrir frekari vöxt á þessu mikilvæga 600 millljóna manna markaðssvæði.“