Marel hefur samþykkt að kaupa bresku félögin AEW Thurne (AEW og Delford Sortaweigh (Delford) fyrir 13,55 milljónir punda, sem samsvarar rúmlega 1,7 milljörðum króna, segir í fréttatilkynningu.

Marel seldi skuldabréf í síðustu viku fyrir sex milljarða króna til að fjármagna framtíðarvöxt félagins, en Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður, sagði á aðalfundi félagsins í febrúar að ráðist yrði í tvær til fjórar stefnumarkandi yfirtökur á næstu árum.

Í tilkynningu Marel segir að kaupin séu fjármögnuð með eigiðn fé og skuldabréfaútgáfu, sem félagið tilkynnti þann 6. apríl. Uppgefið kaupverð tekur ekki mið af skuldum félaganna.

Helstu tæki framleidd af AEW og Delford eru háhraða skurðarvélar (Slicers), tæki til gátvigtunar og verðmerkingar og róbótar til pökkunar matvæla.

Félögin skiluðu á síðasta ári leiðréttri EBITDA upp á tvær milljónir punda af 26,9 milljón punda veltu . Verðmæti fastafjármuna sem fylgja kaupunum nemur 11,3 milljónum punda.

?Kaupin á AEW Delford Group er fyrsta skrefið við innleiðingu á stefnu Marel sem tilkynnt var í febrúar síðastliðinn um að vera leiðandi á alþjóðlegum markaði í þróun og markaðssetningu á hátæknibúnaði fyrir matvælaiðnað og því markmiði Marel að þrefalda veltu félagsins á næstu 3-5 árum," segir í tilkynningunni.

Þar segir að helsti ávinningur Marel með kaupunum á AEW og Delford er að með kaupunum bætast við hágæða vörur sem falla mjög vel að núverandi vöruframboði Marel, aukin skilvirkni og efling vöruþróunar Marel og AEW/Delford með miðlun þekkingar og yfirfærslu á tækni milli vöruflokka og möguleika á að auka sölu á vörum AEW og Delford gegnum sölunet Marel.

AEW og Delford voru keypt af Pelcomb Food Systems (nú AEW Delford Group Limited) 1995 og 1999. Hjá félögunum starfa samtals um 300 manns. Framleiðsla á sér stað í Harwich og Norwich í Bretlandi, en félögin eiga tvö sölu- og markaðsfyrirtæki í Arkansas og Illinois og franskt dótturfélag í Vannes. Helstu markaðssvæði félagsins eru í Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi og Frakklandi.

Að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra, þá eru bæði AEW og Delford, þekkt fyrir að þróa og framleiða hágæðavörur. Vöruframboð þeirra styður vel við aðrar vörur Marel sem gefur okkur færi á að bjóða breiðari lausnir til viðskiptavina okkar.

?Að auki trúum við að hægt sé að auka sölu á vörum AEW og Delford verulega gegnum alþjóðlegt sölunet Marel," segir Hörður.